Það er mikil þörf fyrir aukið gistirými á Akureyri yfir sumartímann, eins og víðar á Norðurlandi. Yfir veturinn minnkar þörfin hins vegar verulega.
Aðsóknin hrynur yfir veturinn
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir að á meðan um 35% þeirra ferðamanna sem koma til Íslands yfir sumatímann skili sér norður, komi ekki nema 13% þeirra yfir veturinn. „Þannig að það er hrun þarna á milli og það gerir náttúrulega hótelrekstur erfiðan.“
Áhættusamt að ráðast í nýbyggingar
Þessi árstíðarsveifla birtist einnig í því að allt að ein og hálf milljón gistinátta er ónýtt á Norðurlandi ár hvert. Og á meðan staðan er þessi er ekki talið sjálfgefið að ráðast í stórar nýfjárfestingar í hótelrekstri. „Þær eru allavega áhættusamar og menn þurfa að skoða allar hliðar,“ segir Arnheiður.
Tvö ný hótel í bígerð á Akureyri
Tvö stór hótel hafa verið í bígerð á Akureyri undanfarna mánuði. Íslandshótel eiga í viðræðum við eigendur Sjallans um nýtt Fosshótel þar og þá eignaðist KEA hótellóð í innbænum á Akureyri fyrir ári. Ekkert hefur orðið af þeim framkvæmdum. En ódýrum gististöðum hefur hins vegar fjölgað gríðarlega á Akureyri.
Sprenging í ódýrri gistingu
„Og síðasta vor varð bara sprenging í þeim málum,“ segir Arnheiður. “Og þetta náttúrulega gerir áhættuna kannski meiri fyrir þá sem eru að huga að fjárfestingum í hótelplássi og hótelgistingu.“
Beint flug frá útlöndum lykilatriði
Í raun er talið að beint áætlunarflug frá útlöndum sé það eina sem myndi tryggja hagkvæmni nýrra hótela á Akureyri. Þá yrði þörfin augljós. „Ef hér hæfist beint flug þá yrðu líka byggð hér hótel,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir
Heimild: Rúv.is