Næstum þúsund lítrar á sekúndu
Töluvert tjón varð þegar önnur af aðalvatnsæðum Veitna fyrir borgina brast á föstudagskvöld og vatn flæddi úr henni af miklum krafti. Samtals næstum þúsund lítrar á sekúndu, eða hátt í þrjú þúsund tonn á þeim fimmtíu mínútum sem tók að stöðva rennslið alveg.
Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, segir ekki liggja fyrir hvað varð til þess að leiðslan rofnaði. „Það er tvennt sem getur gerst þegar svona lagnir fara, það er annaðhvort að þær fara á samskeytum eða að það verður skyndilegt rof á lögninni.“
Tók töluverðan tíma að loka
Íbúar í Hvassaleiti tilkynntu um lekann um klukkan tíu á föstudagskvöld. Næstum klukkutími leið þangað til að vatnið hætti að streyma.
Var brugðist of seint við? „Við höfum farið yfir þetta og mér sýnist á öllu að við höfum brugðist bara hratt og vel við,“ segir Sólrún. „En þetta er í rauninni bara þannig að þetta er bara lest af vatni á fullri ferð á leiðinni frá Heiðmörk sem við erum að stöðva og þetta er ekki bara takki sem þú slekkur á, þú þarf að gera þetta af yfirvegun og hægt, af því það getur komið annars mjög mikið högg á kerfið, þannig að það tekur tíma,“ segir Sólrún.
Til þess að stöðva rennslið þurfti að loka á þremur stöðum, við Sogaveg, Grensásveg og Miklubraut. Jón Trausti Kárason, forstöðumaður vatns- og fráveitu hjá Veitum, segir að ferlið taki tíma. „Ef það er skrúfað of geyst fyrir þá eru svo miklir kraftar á ferðinni sem er verið að stoppa að þeir geta valdið frekari tjóni í kerfinu ofan við þar sem er lokað,“ segir Jón Trausti.
Stjórnstöð Veitna varð fyrst vör við þrýstingslækkun í kerfinu klukkan 21:43. Tilkynning frá íbúum berst skömmu síðar. Þá var strax hafist handa við að skrúfa fyrir vatnið. „Það er búið að loka öllum lokum 22:32 en þá er náttúrulega heilmikið magn af vatni enn þá á leiðinni niður að Hvassaleiti þannig að það tekur alveg góðan hálftíma fyrir vatnsflauminn að stöðvast með öllu,“ segir Jón Trausti.
„Ekkert sem benti til þess að væri komið að viðhaldi“
Rannsókn á því hvað varð til þess að leiðslan brast hefst á morgun. Lögnin er frá árinu 1962 og er því 60 ára gömul.
Getur verið að viðhaldi hafi verið ábótavant? „Nei, ég myndi segja að almennt séð þá er aldur afstæður í lagnakerfum,“ segir Sólrún. „En auðvitað er 60 ára gömul lögn, lögn sem við fylgjumst með,“ segir Sólrún. „Við höfum verið að endurnýja í kringum hana og þær endurnýjanir gáfu til kynna einmitt að þessi lögn væri bara í góðu lagi. Það var í rauninni ekkert sem benti til þess að væri komið að viðhaldi.“
Veitur hvetja fólk sem orðið hefur fyrir tjóni að hafa samband við VÍS, tryggingarfélag Veitna, til að fá tjónið bætt.
Heimild: Ruv.is