Útflutningur á jarðefnum mun innan fárra ára skila yfir 20 milljörðum í útflutningstekjur á ári, ef þau miklu áform um útflutning á vikri af Mýrdalssandi og móbergi úr fjalli í Þrengslunum verða að veruleika. Nú er nokkuð af Hekluvikri selt úr landi en magn útfluttra jarðefna mun meira en tuttugufaldast ef áform ganga eftir.
Stærstu verkefnin eru útflutningur EP Power Minerals á Kötluvikri úr námu á Mýrdalssandi og útflutningur Eden Mining og Heidelberg-sementsframleiðandans á efni sem unnið er úr móbergi úr Litla-Sandfelli í Ölfusi. Útflutningur þessarra tveggja fyrirtækja verður yfir tvær milljónir rúmmetra þegar starfsemin verður komin á fullt skrið.
Dregur úr útblæstri
Jarðefnin á að nota til íblöndunar við sementsframleiðslu í Evrópu. Mikil losun gróðurhúsalofttegunda fylgir framleiðslunni og dregið hefur úr framboði íblöndunarefna sem notuð hafa verið.
Með því að blanda unnum Kötluvikri eða móbergi frá Íslandi í sementið er hægt að draga úr framleiðslu á sementsgjalli og minnka losun óæskilegra lofttegunda. Aka þarf með Kötluvikurinn af Mýrdalssandi til Þorlákshafnar og dregur sá akstur úr ávinningi fyrir umhverfið. Hefur aksturinn verið gagnrýndur vegna áhrifa á umferð og vegi, eins og fram hefur komið. Stuttur akstur er með efnið úr Litla-Sandfelli og ekki um byggð að fara.
Umsvif í Þorlákshöfn
Heidelberg hyggst reisa stóra verksmiðju við höfnina í Þorlákshöfn til að vinna íblöndunarefni úr móberginu fyrir útflutning. Vinnslan verður öll innanhúss. Mun það skapa mikil umsvif í bænum. Bæjarstjórinn segir að ef af því verði þurfi að stækka höfnina enn frekar.
Heimild: Mbl.is