Umfangsmiklar framkvæmdir standa nú yfir í höfninni í Þorlákshöfn. Meðal helstu verkþátta er lenging Suðurvaragarðs um 250 m, endurbygging Suðurvarabryggju og endurbygging Svartaskersbryggju. Heildarkostnaður er áætlaður rúmlega 5 milljarðar króna. Linda Björk Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri Smyril Line Cargo á Íslandi segir framkvæmdirnar mikilvægar, sérstaklega fyrir öryggi þeirra skipa. Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfus segir nú þegar hugað að því að stækka höfnina enn frekar.
Þorlákshöfn hefur í gegnum árin fyrst og fremst verið fiskiskipahöfn. Breytingar í sjávarútvegi hafa orðið þess valdandi að dregið hefur úr löndun afla fiskiskipa í höfninni og fiskvinnslu í bænum en þó er sá þáttur enn veigamikill í starfsemi hafnarinnar. Þorlákshöfn var einnig aðalhöfn ferjunnar Herjólfs en þjónar nú sem varahöfn.
Höfnin hefur ávallt verið þungamiðja atvinnulífs í Þorlákshöfn og því skipti miklu máli að finna ný tækifæri til að efla starfsemina. Það tækifæri kom í apríl 2017 þegar siglingar þekjuferjunnar Mykines til Þorlákshafnar hófust á vegum Smyril Line Cargo en starsemi fyrirtækisins í höfninni hefur farið sístækkandi.
Einn helsti kostur hafnarinnar sem vöruflutningahafnar er nálægð við stærstu markaðssvæði í Evrópu en fyrirtækið sá hag í því að geta flutt ferskvöru milli Íslands og meginlands Evrópu en stór hluti af útflutningsvöru er lax úr laxeldi.
Flókið öldulag og erfið innsigling
„Höfnin í Þorlákshöfn er ein erfiðasta höfn landsins með tilliti til öldulags og hreyfingu innan hafnar,“ segir Fannar Gíslason forstöðumaður hafnadeildar Vegagerðarinnar sem hefur komið að hönnun og ráðgjöf í tengslum við þær framkvæmdir sem eru í gangi í höfninni.
„Öldulagið er flókið og hér geta myndast soghreyfingar sem geta leitt til þess að útslagið verður einn og hálfur til tveir metrar. Það getur hæglega slitið landfestar skipa,“ lýsir Fannar og bendir á að innsiglingin sé mjög krefjandi en muni batna töluvert þegar búið verður að gera breytingar á höfninni. „Það er mikill munur á höfn í djúpum firði eða höfn eins og hér sem stendur við úthafið. Það er mun dýrara að byggja og viðhalda slíkri höfn en í Þorlákshöfn er líklega sú höfn á suðuvesturströndinni sem helst býður upp á stækkun.“
Fannar segir þær breytingar sem nú er verið að gera á höfninni afar nauðsynlegar og muni að öllum líkindum breyta rekstrarafkomu hafnarinnar til muna. Mikil trú er á framtíðarvöxt hafnarinnar en þar má nefna væntanlegar framkvæmdir Smyril line við stórt vöruhús, undirbúning Heidelberg að uppsetningu á umhverfisvænni framleiðslu á íblöndunarefni í steypu, hringrásarverkefni GeoSalmo, nýframkvæmdir Fiskmarkaðar Íslands, nýtt verkstæði KAPP, stækkun seiðaelda svo og mikil uppbygging Landeldi ehf.
Viðamiklar framkvæmdir framundan
Þorlákshöfn er varin af tveimur stórum brimvarnargörðum. Hafnarsvæðið er u.þ.b. 36 ha. að stærð og nær yfir allt hafnarsvæðið að hafnarmannvirkjum meðtöldum.
Í höfninni eru fjórar bryggjur.
• Svartaskersbryggja, um 250 metra löng með viðlegu beggja vegna.
• Herjólfsbryggja, 80 metra löng og útbúin fyrir ferjusiglingar.
• Skarfaskersbryggja, 156 metra löng og útbúin fyrir vöruflutninga.
• Suðurvarabryggja, 160 metrar (heildarlengd er 230 metrar).
Auk þess er smábátahöfn, með um 240 metra viðlegu við flotbryggjur.
Þó nokkrar breytingar hafa verið gerðar á höfninni í Þorlákshöfn á undanförnum árum til að skapa betri aðstæður fyrir hafnsækna starfsemi. Höfnin hefur verið dýpkuð, snúningsrými aukið og viðlegukantar bættir. Byggður var rampur á Skarfaskersbryggju fyrir vöruflutninga og nýverið voru settir upp nýir fenderar við Herjólfsbryggju. Og nú eru hafnar miklar framkvæmdir við höfnina sem standa munu næstu árin.
Þær framkvæmdir sem eru þegar farnar af stað eru lenging Suðurvarargarðs og endurbygging Svartaskersbryggju. Í undirbúningi er niðurrif núverandi Suðurvararbryggju og uppbygging hennar en endurbygging á stálþili bryggjunnar verður boðin út á næsta ári. Lenging Skarfaskersbryggju, þar sem Smyril Line Cargo leggur að, verður boðin út árið 2024 eða 2025.
Heildarkostnaður allra þessara framkvæmda er áætlaður rúmlega 5 milljarðar.
Lenging Suðurvarargarðs og endurbygging Suðurvararbryggju
Framkvæmdir við lengingu Suðurvarargarðs hófust í desember á síðasta ári. Suðurverk hf. er verktaki en áætlaður kostnaður er um 2,3 milljarðar króna. Verkið snýst um lengingu garðsins um 250 metra, rif á harðviðartunnu á garðsenda og undirbúning á færslu og snúningi Suðurvararbryggju með byggingu brimvarnargarðs, niðurbroti Suðurvararbryggju og dýpkun bryggjustæðis í 9 metra.
„Nýi brimvarnargarðurinn kemur til með að liggja að nýju Suðurvararbryggjunni en sú gamla verður rifin. Bryggjunni verður þannig snúið um 35 gráður,“ lýsir Fannar en ástæðan er sú að með því að snúa bryggjunni og lengja varnargarðinn verður öldulag betra og auðveldara fyrir stór skip að athafna sig innan hafnarinnar. „Áður var mjög algengt að ekki væri hægt að leggjast að Suðurvararbryggju í vondum veðrum, það vandamál verður mjög takmarkað eða vonandi úr sögunni eftir framkvæmdirnar.“
Hafnadeild Vegagerðarinnar sá um öldufarsreikninga og gerði mat á því hvað garðurinn þyrfti að ná langt til að ná ákveðinni kyrrð. Verkfræðistofa Suðurnesja gerði útboðsgögn en Portum verkfræðistofa sér um eftirlit með verkinu.
Framkvæmdirnar ganga vel að sögn Fannars. „Lengingin gengur hratt í byrjun en eftir því sem dýpið verður meira eykst efnismagnið sem þarf fyrir hvern meter. Það dregur því úr sjónrænni framvindu á næstu mánuðum.“
Áætluð verklok eru í desember 2023. „Við vonumst til að verkinu ljúki fyrir vetrarbyrjun en þó er hugsanlegt að það takist ekki. Þá þarf að loka garðsendanum fyrir veturinn og byrja aftur næsta vor þegar aldan minnkar.“
Endurbygging á stálþili Suðurvararbryggju verður ekki boðin út fyrr en vorið 2023. Bryggjan er sérstaklega hugsuð fyrir fraktflutninga í útflutningi á ösku og jarðvegi.
Endurbygging Svartaskersbryggju
„Svartaskersbryggja var byggð árið 1973 í kjölfarið á eldgosinu í Eyjum þegar koma þurfti bátum Eyjamanna fyrir. Bryggjan er því að verða fimmtíu ára gömul og hreinlega orðin hættuleg,“ segir Fannar en Svartaskersbryggja er hugsuð fyrir fiskibáta og hægt að leggja að henni frá báðum hliðum.
Endurbygging Svartaskerskbryggju var boðin út í apríl á þessu ári og verktakinn, Hagtak hf, bauð lægst í verkið, um 300 milljónir króna. Verklok eru áætluð í haust. Eftir á að bjóða út vinnu við að steypa þekju og verður verkið allt í heild um 600 milljónir króna. Fortum verkfræðistofa sá um gerð útboðsgagna og hefur eftirlit með framkvæmdinni.
Helstu verkþættir í endurbyggingu bryggjunnar eru að brjóta og fjarlægja kant, polla og þekju á núverandi bryggju. Reka þarf niður 146 tvöfaldar stálþilsplötur einnig einfalda sömu gerðar. Steypa þarf 62 akkerisplötur og setja upp stög. Þá þarf að steypa 230 m langan kantbita með pollum og setja upp kanttré, stiga og þybbur.
Þessum hluta endurbyggingarinnar skal lokið í október 2022.
Lenging Skarfaskersbryggju
Nokkrar breytingar voru gerðar á Skarfaskersbryggju árið 2017 til að skip Smyril Line Cargo gætu nýtt hana. Settur var rampur til að hægt væri að opna vöruflutningaskipin og aka úr þeim vöruvagna, vélar, tæki og bíla.
Í bígerð er að lengja bryggjuna um 30 metra til að enn stærri skip geti lagt þar að.
Gott dæmi um sjálfbærni
Gríðarmikið efni þarf til að lengja Suðurvarargarð. Heildarstærð framkvæmdasvæðisins er 4,5 ha og er grjótmagn sem fer í lengingu brimvarnargarðsins er áætlað um 300.000 m3. Allt grjót nema það stærsta kemur úr námu sem varð til við landmótun lóðar fiskeldisstöðvarinnar Landeldis ehf. við Laxabraut í Þorlákshöfn.
„Það má segja að þetta sé afburða gott dæmi um sjálfbærni í framkvæmdum,“ segir Fannar og útskýrir. „Landeldi ehf. þarf að móta lóðina hjá sér til að setja upp fjöldan allan af kerjum fyrir laxeldi. Til þess þurfa þeir að taka burt 300 þúsund rúmmetra af efni. Þar sem þetta átti að gerast á sama tíma og framkvæmdirnar við höfnina var farið í að rannsaka bergið í lóð Landeldis og kom í ljós að það hentaði ágætlega. Reyndar er stærð grjótsins takmörkuð svo stærstu steinarnir verða teknir úr námu á Hafnarsandi, norðan við bæinn.“
Samið var við forsvarsmenn Landeldis um að framkvæmdaaðilar hafnarinnar sæju um að sprengja og moka burt efninu en Landeldi myndi borga vissa upphæð á hvern fermeter. Verktakinn fær í staðinn að hirða grjótið. „Með þessu verður startið fyrir Landeldi minna og við fáum grjót á góðum kjörum.“
Þegar hugað að enn frekari stækkun hafnarinnar
Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfus er ánægður með framgang framkvæmdanna og þá uppbyggingu sem áætluð er í höfninni. „Vöxtur hafnarinnar hér í Þorlákshöfn hefur ætíð verið aðdragandi að uppgangi atvinnulífsins á svæðinu.
Við finnum það nú þegar að þær miklu breytingar sem eru að verða eru sterkur vindur í segl framsækinna hugmynda,“ segir Elliði og vill meina að höfnin gegni lykilhlutverki fyrir þau gríðarlegu tækifæri sem fylgja landeldi á laxi. „Í augnablikinu er verið að vinna að framkvæmdum við landeldisverkefni sem til samans munu geta framleitt allt að 130 þúsund tonn af laxi. Fjárfestingakostnaðurinn á bakvið verkefnin gæti auðveldlega legið nærri 160 milljörðum króna.
“ Hann nefnir einnig að eitt af stærri loftslagsverkefnum landsins sé í undirbúningi við höfnina þar sem Heidelberg undirbýr framleiðslu á umhverfisvænum íblöndunarefnum í steypu. Það muni draga úr útblæstri gróðurhúslofttegunda um allt að 2100 tonn á ári, eða sem nemur um 50% af öllum útblæstri á landinu. Þá sé ótalið hversu miklu núverandi hafnarframkvæmdir skipti fyrir fiskiskipaflotann, vöruflutninga og margt fl.
„Það er sennilega til marks um hversu vel samgönguyfirvöld hafa staðið að verki í hafnarmálum hér í Þorlákshöfn að við sjáum það strax að þegar höfnin verður tilbúin eftir tvö ár verður hún þegar orðin of lítil til að mæta þörfum atvinnulífsins. Þess vegna erum við byrjuð að undirbúa næstu skref sem liggja í frekari stækkun hafnarinnar til norðurs.“
Aðeins fyrsta skrefið af mörgum
Smyril Line Cargo hóf siglingar til Þorlákshafnar árið 2017 og hratt þannig af stað þeirri þróun sem hefur átt sér stað í höfninni. Linda Björk Gunnlaugsdóttir er framkvæmdastjóri Smyril Line Cargo á Íslandi. Hún útskýrir af hverju Þorlákshöfn varð fyrir valinu þegar fyrirtækið leitaði eftir hentugri höfn.
„Þegar við vorum að skoða að hefja siglingar vöruflutningaskipa á Suðvesturhorn landsins þá vorum við með í huga höfn sem gæti fullnægt kröfum um stystu siglingaleið til meginlandsins. Við vildum geta farið eins seint í vikunni frá landinu og verið sem fyrst í vikunni á meginlandinu fyrir útflutning og öfugt fyrir innflutning. Við vorum með aukna þjónustu við flutning á ferskum fiski í huga þar sem eftirspurnin eftir hröðum flutningi er helst. Á þessum tíma var síðasta brottför skipa frá landinu á miðvikudegi/fimmtudegi sem gerði það að verkum að útgerðir og seljendur urðu að senda framleiðslu fimmtudags og föstudags út með flugi sem á þeim tíma kostaði að minnsta kosti fjórum sinnum meira í flutningi pr. kg miðað við sjóflutning.“
Á þessum tíma, það er í apríl 2016, var aðstaðan í Þorlákshöfn ekki til staðar fyrir þá tegund af skipum sem Smyril Line Cargo er að nota. Það eru svokölluð RO/RO skip (roll on/ roll off) og þá þarf ramp til að geta opnað skipið og keyrt vöruvagna, vélar, tæki og bíla út. „Við hófum viðræður við Ölfus vorið 2016 og hófum siglingar aðeins ári seinna þegar Mykines hóf siglingar.“
Í dag sigla þrjú skip Smyril Line Cargo á viku til Þorlákshafnar. Það eru Mistral til/frá Hirtshals í Danmörku á mánudögum, Akranes til/frá Rotterdam á miðvikudögum og Mykines til/frá Rotterdam á föstudögum
Aðal útflutningsvaran um borð í skipunum er fiskur, mest ferskur fiskur. Einnig vatn, þurrvara og bílar. Það helsta sem flutt er inn eru bílar, vélar, tæki, hjólhýsi, byggingavörur, matvara og önnur neysluvara. Linda segir nokkra þróun hafa verið í því sem flutt er til landsins. „Margir halda að við séum einungis að flytja bíla, vélar og tæki en það er ekki rétt. Við erum að flytja bland af öllu sem flutt er til landsins. Okkar vagnar henta vel til flutnings á allri vöru enda er vörumeðhöndlunin fyrsta flokks þar sem varan er sett í vagn, keyrð um borð og keyrð heim til viðtakanda. Ekki þarf neinar hífingar eða lyftingar um borð.“
Gott samstarf við Ölfus og Vegagerðina
Linda segir fyrirtækið hafa verið í afar góðu samstarfi bæði við sveitarfélagið og Vegagerðina. „Strax í upphafi var byggður rampur þannig að hægt væri að losa skipin. Það þótti í byrjun svolítið djarft að fara í þessar framkvæmdir fyrir okkur en það hefur nú aldeilis borgað sig þar sem vöruflutningur um höfnina hefur vaxið gífurlega með auknum tekjum fyrir höfnina. Það að vöruflutningar geti nú farið um höfnina hefur einnig haft önnur áhrif. Til dæmis hefur löndun á fiski í gegnum höfnina aukist.“
Þær framkvæmdir sem nú standa yfir í höfninni segir Linda að skipti gríðarmiklu máli. „Þessar breytingar munu auka öryggi skipa okkar í innsiglingunni til muna. Eins og margir vita er innsiglingin þröng og engin leið fyrir skip af okkar stærð að snúa við ef eitthvað kemur upp á. Með breytingunni munu skipin geta snúið sér inn í höfninni, dýpið verður betra og svo mætti lengi telja. Við höfum fengið að vera í samtali við Ölfus og Vegagerðina í þessu ferli enda höfum við bent á frá upphafi að úr þyrfti að bæta. Með breytingunni getum við einnig skoðað möguleika á stærri skipum og meiri umsvifum.“
En hvernig sér hún framtíðina fyrir sér? „Við sjáum mjög mikla möguleika í Þorlákshöfn og að okkar mati er þessi breyting fyrsta púslið í mun stærri mynd. Þorlákshöfn er í okkar huga framtíðarhöfn með mikla möguleika og við sjáum okkur stækka þar í framtíðinni með stærri og fleiri skipum.“
Heimild: Vegagerðin.is