Ákvörðun um nýbyggingar á Alþingisreitnum er á forræði Alþingis en ekki forsætisráðuneytisins eða ríkisstjórnarinnar. Það er forsætisnefnd sem hefur tekið ákvarðanir um þessi mál fyrir hönd þingsins. Þetta staðfestir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, í samtali við Kjarnann.
Nefndin hefur þegar tekið fyrstu skrefin í átt að byggingu skrifstofubyggingar á Alþingisreitnum svokallaða. Það er gert með því að láta vinna frumathugun vegna fyrirhugaðrar byggingar í samvinnu við Framkvæmdasýslu ríkisins. Halldóra Vífilsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins, staðfestir einnig í svari við fyrirspurn Kjarnans að slík frumathugun sé hafin.
Í frumathuguninni er ekkert kveðið á um að taka skuli tillit til teikninga Guðjóns Samúelssonar, eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur ítrekað lýst yfir að sé hans vilji. Í fjárlögum fyrir næsta ár er tekið fram að „við undirbúning framkvæmda skal hafa hliðsjón af þeim áformum sem uppi voru um uppbyggingu á Alþingisreignum fullveldisárið 1918, sbr. fyrirliggjandi teikningar Guðjóns Samúelssonar fyrrverandi húsameistara ríkisins.“
Heimild: Kjarninn.is