Undirritaður hefur verið verksamningur milli Garðabæjar og ÞG verk vegna byggingu 2. áfanga Urriðaholtsskóla.
Undirritaður hefur verið verksamningur milli Garðabæjar og ÞG verk vegna byggingu 2. áfanga Urriðaholtsskóla í Garðabæ. ÞG-verk var lægstbjóðandi í framkvæmdaútboði um bygginguna sem fram fór í byrjun sumars. Samningsupphæðin hljóðar upp á um 2,8 milljarða króna. Verkið felur í sér byggingu og fullnaðarfrágang 2. áfanga skólans að utan sem innan, ásamt fullbúinni og frágenginni lóð.
Urriðaholtsskóli er samrekinn leik- og grunnskóli í Urriðaholti, fyrir 1. til 10. bekk í grunnskóla ásamt því að 6 deilda leikskóli er í skólanum. Fyrsti áfangi skólans var tekinn í notkun árið 2018.
Bygging 2. áfanga Urriðaholtsskóla og áform um 3. áfanga
Annar áfangi skólans verður á 2 hæðum og verður hann sambyggður fyrsta áfanga við vesturgafl og að öllu leyti eins útfærður. Byggingin verður einangruð að utan með samskonar klæðningu og á henni verður flatt, tyrft þak. Heildarstærð 2. áfanga áfanga verður um 4.900 m².
Jarðvinnu vegna 2. áfanga er þegar lokið og unnið er að uppsetningu verkstaðar, vinnubúða og öryggisgirðinga. Byggingaframkvæmdir ÞG-verk hefjast af fullum þunga strax eftir Verslunarmannahelgina. Byggingunni verður skv. verkáætlun samningsins við Garðabæ skilað fullbúinni að utan sem innan í byrjun árs 2024.
Unnið er að lokahönnun þriðja og síðasta áfanga skólans, sem mun m.a. hýsa íþróttasal og sundlaug ásamt tilheyrandi rýmum. Þegar hönnun á 3. áfanga lýkur fer hann í ferli samþykktar og útboðs.
Heimild: Garðabær.is