Home Fréttir Í fréttum Fjögurra milljarða laxasláturhús fer í gang á næsta ári

Fjögurra milljarða laxasláturhús fer í gang á næsta ári

205
0
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Nýtt laxasláturhús Arctic Fish í Bolungarvík kostar hátt í fjóra milljarða króna. Framkvæmdir ganga vel og útlit fyrir að slátrun hefjist á fyrsta ársfjórðungi 2023.

Brimbrjóturinn í Bolungarvíkurhöfn var reistur á miklu vaxtarskeiði í bænum og stóð hann sína plikt gegn óvægnu hafinu um áratugaskeið.

<>

„Þetta er eitt af einkennum Bolungarvíkur og tímanna tákn og núna erum við að rífa brimbrjótinn okkar og rýma til fyrir framtíðinni,” segir Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri.

Og framtíðin liggur í laxeldi, en í brjótsins stað rís nú nýtt laxasláturhús Arctic Fish í Bolungarvík. Fyrirtækið keypti þúsund fermetra hús af Fiskmarkaði Íslands um áramótin og reisir nú 1700 fermetra hús til viðbótar.

Taka við búnaði í húsið í haust

„Þetta er búið að vera svolítið hraður undirbúningur. Húsið á að reisast upp í sumar svo að við getum farið að taka við búnaði seinnipart hausts,” segir Ragna Helgadóttir, verkefnastjóri framkvæmda hjá Arctic Fish.

Fullfermi af eldislaxi munu koma að höfninni og fara lifandi inn í húsið. Þá fer hann í gegnum vinnsluna og út um hinn endann kemur fullunnin afurð.

Gera má ráð fyrir að nokkrir tugir eigi eftir að starfa í sláturhúsinu sem hefur starfsemi á fyrstu mánuðum næsta árs.

„Þá munum við sjá eitt tæknivæddasta sláturhús í heimi. Við munum vera með 2700 fermetra hús með öllum nýjasta búnaði sem til er. Við erum að ganga frá samningum um allan búnaðinn innanhúss og það er gaman að segja frá því að það er mikið af íslenskum fyrirtækjum bæði hérna í heimabyggð og annars staðar. Það er mjög skemmtilegt að fá íslenskt hugvit inn í þetta,” segir Ragna, en verkefnið kostar tæpa fjóra milljarða.

Sláturhúsið mun geta annað allri framleiðslu laxeldis á Vestfjörðum. 22,5 þúsund tonn voru framleidd þar í fyrra. Fyrirséð er að sú tala kemur til með að hækka, til dæmis með frekari leyfisveitingum í Ísafjarðardjúpi.

Heimild: Ruv.is