Þrettán kílómetra langur vegarkafli á hæsta hluta Dynjandisheiðar verður boðinn út á morgun. Samtímis er Vegagerðin að skoða málamiðlun að nýju vegstæði við fossinn Dynjanda til að hlífa sem mest bæði landslagi og fornminjum.
Fjallað var um útboðið í fréttum Stöðvar 2 en eftir að Dýrafjarðargöng voru tekin í notkun haustið 2020 hefur verið þrýst á uppbyggingu leiðarinnar um Dynjandisheiði sem heilsárvegar.
Tveir áfangar náðust í fyrra. Nýr kafli um Dynjandisvog var opnaður í október og í nóvember var nýr kafli opnaður um Pennusneiðing, Bíldudalsgatnamót og að Norðdalsá, en ófrágenginn og án slitlags.
Klæðning verður þó væntanlega fyrir mitt sumar komin á þann kafla, sem í upphaflegu útboði var 5,7 kílómetra langur en var lengdur upp í 8,2 kílómetra í sárabætur þegar frestað var að bjóða út næsta áfanga á Dynjandisheiði vegna fjárskorts.
Núna hefur Vegagerðin fengið grænt ljós á að halda verkinu áfram og verður útboð 12,6 kílómetra kafla auglýst á morgun, að sögn Sigurþórs Guðmundssonar, verkefnisstjóra Vegagerðarinnar. Útboðið er auglýst á evrópska efnahagssvæðinu.
Sá kafli nær frá Norðdalsá, norðan Bíldudalsgatnamóta, og liggur um hæstu hluta heiðarinnar, um efstu hlíðar Geirþjófsfjarðar og norður fyrir sýslumörk. Tilboðsfrestur er til 5. júlí næstkomandi. Framkvæmdatími er áætlaður tvö ár og gert ráð fyrir verklokum 15. júlí 2024.
Samtímis er verið leggja drög að nýrri veglínu í Dynjandisvogi. Fossinn Dynjandi og umhverfi hans eru friðlýst og því er ný vegarlagning þar vandmeðfarin.
Vegagerðin hafði í umhverfismati kynnt tvær leiðir; annarsvegar að skera nýjan veg upp í fjallshlíðina ofan Búðavíkur, sem þýddi talsvert rask í hlíðinni en beinni veg; og hins vegar að fylgja að núverandi vegstæði, sem þýddi að fornminjar í víkinni færu undir veginn við breikkun hans, auk þess sem krappar beygjur myndu haldast.
Þar sem ekki hefur náðst sátt um hvoruga leiðina hefur Vegagerðin núna kynnt sem málamiðlun að fylgja núverandi vegstæði að mestu en færa veginn ofar í brekkuna í Búðavík, hlífa fornu búðatóftunum þar í fjöruborðinu, og skera veginn upp í klettana í víkinni.
Með því væri unnt að gera veginn meira aflíðandi á stallinum fyrir ofan og fækka þar kröppum beygjum. Gatnamótin að Dynjanda myndu jafnframt færast örlítið norðar.
Heimild: Visir.is