Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar undirrituðu í dag samning um stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra í Mosfellsbæ.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Reist verður nýbygging áföst heimilinu fyrir 44 íbúa. Þar með ríflega tvöfaldast stærð heimilisins með aðstöðu fyrir samtals 77 íbúa.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist seinni hluta næsta árs og að hægt verði að taka heimilið í notkun í ársbyrjun 2026.
Ríkið greiðir 85%
„Hér er um stóra og mikilvæga framkvæmd að ræða sem skiptir miklu máli fyrir samfélagið hér. Þörfin fyrir fleiri hjúkrunarrými er brýn samhliða uppbyggingu annarrar þjónustu.
Með þessu er framfylgt stefnu stjórnvalda um að mæta aukinni þörf fyrir hjúkrunarrými, jafnframt því að bæta aðbúnað fyrir íbúa og starfsfólk og efla og bæta þjónustu við aldraða,“ er haft eftir Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra í tilkynningunni
Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina eru tæpir 2,5 milljarðar króna og skiptist kostnaðurinn þannig að 85% greiðast úr ríkissjóði á móti 15% framlagi bæjarfélagsins sem jafnframt leggur til lóðina undir húsnæðið.
Ætla að efla félagsstarf fyrir alla eldri íbúa
„Við Mosfellingar fögnum ríflega tvöföldun hjúkrunarheimilisins Hamra. Þannig getum við betur mætt þörfum íbúa Hamra og eflt starfsemina frá því sem nú er enda verður einingin hagkvæmari í rekstri sem mun skila sér til íbúanna.
Þá notum við tækifærið til að efla félagsstarf Mosfellsbæjar í húsinu til hagsbóta fyrir alla eldri íbúa og fjölskyldur þeirra,“ er haft eftir Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra Mosfellsbæjar.
Hjúkrunarheimilið Hamrar stendur við Langatanga í Mosfellsbæ. Húsnæðið er um 2.200 fermetrar með aðstöðu fyrir 33 íbúa. Þjónustumiðstöð og dagvistun eru samtengdar heimilinu.
Nýbyggingin mun rísa norðan við núverandi heimili, samtals 2.860 fermetrar á tveimur hæðum og verður samtengd eldri byggingu.
Heimild: Mbl.is