Reykjavíkurborg samþykkti á síðasta ári breytingar á skipulagi lóðarinnar að Háaleitisbraut 1, sem færa eiganda lóðarinnar hálfan milljarð. Sjálfstæðisflokkurinn er eigandi lóðarinnar og Valhöll, sem hýsir skrifstofur flokksins er á henni.
Ekki er um að ræða að Valhöll víki fyrir annarri byggð, heldur er um þéttingu byggðar að ræða og viðbótarbyggingarmagn á lóðinni.
Í kynningarbæklingi, sem Reykjavíkurborg gaf út í október 2021, um uppbyggingu íbúða í borginni, kemur fram að síðasta sumar var samþykkt breyting á deiliskipulagi við Háaleitisbraut 1.
Á horni Skipholts og Bolholts er nú heimilt að reisa sex hæða íbúðarhús með 47 íbúðum á stærðarbilinu 40 til 150 fermetrar, auk bílakjallara og þjónustu- og verslunarrýmis á jarðhæð.
Næst Kringlumýrarbraut er heimilt að reisa fimm hæða skrifstofubyggingu með bílakjallara. Þá er heimilt er að hafa íbúðir í stað atvinnuhúsnæðis á fimmtu hæð hússins og gætu þær orðið fjórar til sex talsins.
Fram kemur að verkefnið sé á undirbúningsstigi en endanleg framkvæmdaáætlun liggi ekki fyrir. Þó liggi fyrir að framkvæmdir við íbúðarhús við Bolholt gætu hafist áður en langt um líður.
Löggiltur fasteignasali sem Fréttablaðið ræddi við segir þennan byggingarrétt vera að minnst kosti 500 milljóna króna virði.
Fréttablaðið sendi Þórði Þórarinssyni, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, nokkrar spurningar vegna þessa máls:
- Er komin tímaáætlun á framkvæmdir á reitnum?
- Hyggst Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur fara í þessar framkvæmdir?
- Hyggst Sjálfstæðisflokkurinn selja þennan byggingarrétt?
- Telur Sjálfstæðisflokkurinn nýtingu þessa byggingarréttar í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem leggst gegn þéttingu byggðar?
Engin svör hafa borist frá Sjálfstæðisflokknum.
Heimild: Fréttablaðið.is