Þýskt fyrirtæki sem undirbýr útflutning á vikri úr námum á Mýrdalssandi er jafnframt að láta gera könnun á möguleikum þess að gera höfn á sandinum til þess að geta flutt vikurinn beint út.
Frambjóðendur B-lista framsóknar og óháðra við komandi sveitarstjórnarkosningar hafa vakið athygli á þessari hugmynd og segja að höfn gæti orðið lyftistöng fyrir samfélagið og aukið fjölbreytni atvinnulífs.
Hafnleysa er á suðurströnd landsins, frá Landeyjum í Hornafjörð. Þótt stundum hafi komið upp áhugi á hafnargerð í Mýrdal hafa hugmyndirnar ekki náð fótfestu. Sérstaklega hafa þær þær tekið mið af aðstæðum við Dyrhólaey og að hugsanlegt væri að gera hafskipalægi inni í ósnum.
Það mál komst fyrst á dagskrá um aldamótin 1900 þegar Englendingar buðust til að gera þar höfn gegn því að fá að veiða í landhelginni við Suðurland í áratugi. Hugmyndirnar voru endurvaktar um miðja öldina og enn var það áhugi á útgerð sem dreif þær áfram. Á seinni tímum voru gerðir út hjólabátar til fiskveiða og með ferðamenn, frá Dyrhólaey og víðar á söndunum.
Hugmyndir um hafnargerð nú grundvallast á áformum eigenda jarðarinnar Hjörleifshöfða um stórfelldan útflutning á vikri til að blanda í steypu úti í Evrópu.
Í vinnu við umhverfismat sem nú stendur yfir er gert ráð fyrir að vikurinn verði fluttur með stórum flutningabílum eftir þjóðveginum um Suðurland og í skip í Þorlákshöfn. Það hefur mælst illa fyrir í sumum sveitarfélögunum sem fara þarf í gegnum. Einnig eru áform um að hefja útflutning á sandi úr fjörunni til notkunar við sandblástur í Evrópu.
Minna kolefnisspor
Fyrirtækið EP Power Minerals hefur jafnframt verið að athuga möguleika á gerð hafnar þannig að hægt yrði að flytja vikurinn út án þess að fara út á þjóðveginn. Unnið hefur verið að fýsileikakönnun en lokaniðurstöður hafa ekki verið birtar.
Einar Freyr Elínarson, oddviti Mýrdalshrepps og þriðji maður á B-lista framsóknar og óháðra við komandi sveitarstjórnarkosningar, segir að það yrði umhverfisvænni kostur að flytja vikurinn beint út frá ströndinni í Mýrdal.
Heimild: Mbl.is