Miklar breytingar verða á ásýnd byggðarinnar í Bolungarvík með breytingum á skipulagi og úthlutun nýrra lóða. Mesta nýjungin er að gert er ráð fyrir að Aðalstræti, gatan sem flestir gestir aka um þegar komið er inn í bæinn, verði íbúðagata en þjónustan færist að höfninni.
Skortur er á íbúðum í Bolungarvík, eins og víðar á Vestfjörðum.Við því hefur bæjarstjórn brugðist með því að skipuleggja nýtt hverfi fyrir framtíðarbyggð. Er það svokallað Hreggnasahverfi á láglendinu við Hólsá, í framhaldi af núverandi íbúðabyggð og ofan við innkeyrsluna í bæinn.
Samkvæmt deiliskipulagi sem nú er í kynningu er gert ráð fyrir 20 íbúðalóðum sem hægt væri að byggja um 50 íbúðir á. Eru þetta einbýlis-, par- og fjölbýlishús. Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri segir að mikil eftirspurn sé eftir einbýlishúsalóðum og á von á að það komi fram þegar fyrstu lóðunum verður úthlutað í júní.
Forsendan fyrir því að búist er við auknum áhuga á búsetu í Bolungarvík er að sögn bæjarstjórans að unnið er að uppbyggingu laxasláturhúss Arctic Fish, mjólkurvinnslan Arna er að efla starfsemi sína og von er á að Bolungarvík komist vel á kortið sem áfangastaður ferðafólks með opnun útsýnispallsins á Bolafjalli á komandi sumri.
Tryggja þurfi að fólkið sem kemur til starfa geti fengið húsnæði. Skipulagið sem nú er í kynningu gerir einnig ráð fyrir uppbyggingu í þágu ferðaþjónustu við Hreggnasahverfið en hinum megin Hólsár.
Íbúðir við „breiðgötuna“
Þegar komið er til Bolungarvíkur tekur á móti gesti breið gata með nokkrum stórbyggingum sem hýsa skrifstofur og verslanir helstu atvinnufyrirtækjanna í bænum, svo sem eins og sjávarútvegsfyrirtækis Einars Guðfinnssonar og byggingavöruverslun Jóns Friðgeirs Einarssonar. Fáir íbúar voru við þessa götu. Þetta er að breytast. Verið er að breyta efri hæðunum í íbúðir en verslanir og ýmis þjónusta er enn á jarðhæð.
Unnið er að breyttu skipulagi þar sem byggð verða að minnsta kosti þrjú fjölbýlishús á auðum lóðum í áðurnefndri húsaröð. Fyrstu útlitsteikningar að húsunum voru kynntar á fundi bæjarráðs í gær. Útlit þeirra tekur mið af gömlum sjóbúðum sem stóðu á þessum slóðum, svokölluðum Fjórbúðum sem tóku nafn sitt af fjórum burstum í röð.
Gangi áætlanir um byggingu nýrra fjölbýlishúsa eftir verður Aðalstræti ein fjölmennasta íbúðagatan á staðnum með um 100 íbúðir.
Þjónusta tengd við hafnarlíf
Síðasti þáttur í þessum breytingum á skipulagi er að byggja upp þjónustusvæði við höfnina. Reiknað er með að þjónusta við íbúa og ferðafólk færist þangað af Aðalstrætinu.
Heimild: Mbl.is