Home Fréttir Í fréttum Verra ástand vega en lægri fjárhæð fer í framkvæmdir

Verra ástand vega en lægri fjárhæð fer í framkvæmdir

119
0
Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Rúmum fjórum milljörðum króna verður varið í viðhald á vegum landsins í ár. Þetta er helmingi lægri fjárhæð en Vegagerðin varði í framkvæmdir í fyrra. Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, segir ástandið verra en síðustu ár.

„Svona við fyrsta mat þá sýnist okkur þetta vera sýnu verra eftir þennan þunga vetur, án þess að geta sett mælistiku á það nákvæmlega,“ segir Óskar.

<>

Veturinn var snjóþungur og miklar leysingar í kjölfarið fór ekki vel með göturnar. Viðhald á gatnakerfinu kostar sitt og í fyrra var framkvæmt fyrir hærri upphæðir en áður.

„Heildarupphæðin þar var ríflega 8 milljarðar króna sem helgast af meðvitaðri ákvörðun að auka hlutfall malbiks.“

Malbikið er þrisvar sinnum dýrara en klæðningin enda slitsterkara. Þá hjálpaði góð tíð í fyrra til að lengja framkvæmdatímann. En hve miklum fjármunum verður varið í framkvæmdir í ár?

„Við erum að gera ráð fyrir að setja í bundið slitlag hjá okkur í ár fyrir rétt rúmlega fjóra milljarða króna.“

Hefðuð þið þurft meira?

„Já hjá Vegagerðinni í tæknideildinni erum við sífellt að benda á að sinna viðhaldi á þeim mannvirkjum sem við höfum verið að byggja upp síðustu  áratugi. Það er okkar hlutverk að benda á að setja meiri fjármuni í þessa hluti.“

Undanfarna daga hefur verið unnið að holufyllingum en það styttist í stórtækari framkvæmdir.

„Við viljum að sjálfsögðu að fólk fari varlega í umferðinni og fylgist með ef það er eitthvað óvænt á vegum landsins að vera á varðbergi  gagnvart því,“ segir Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.

Heimild: Ruv.is