Home Fréttir Í fréttum Lægstbjóðandi vonast til að byrja í Teigsskógi í vor

Lægstbjóðandi vonast til að byrja í Teigsskógi í vor

130
0
Óskar Sigvaldason, framkvæmdastjóri Borgarverks, í Gufudalssveit haustið 2020. Fjær sést yfir á Hallsteinsnes og í Teigsskóg. EGILL AÐALSTEINSSON

Tilboð í umdeilda vegagerð um Teigsskóg voru opnuð í dag. Lægsta boð reyndist um tvöhundruð milljónum króna undir kostnaðaráætlun, kom frá Borgarverki og hljóðar upp á ríflega 1,2 milljarða króna.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 var rifjað upp að það var Borgarverk sem hóf endurnýjun Vestfjarðavegar um Gufudalssveit haustið 2020 með sjö kílómetra kafla í Gufufirði.

Þverun Þorskafjarðar hófst svo síðastliðið vor en þann hluta annast Suðurverk en Eykt smíðar sjálfa brúna.

Og í dag voru tilboð opnuð hjá Vegagerðinni í lagningu ellefu kílómetra kafla um Teigsskóg. Lægsta boðið, frá Borgarverki, var upp á 1.235 milljónir króna eða 86 prósent af áætluðum verktakakostnaði upp á 1.430 milljónir króna.

Tilboð Norðurtaks og Skútabergs frá Akureyri var litlu hærra en tilboð Suðurverks og Íslenskra aðalverktaka reyndust bæði yfir áætlun.

Fjögur tilboð bárust í verkið. Tvö reyndust undir áætluðum verktakakostnaði.
GRAFÍK/KRISTJÁN JÓNSSON

„Þetta leggst mjög vel í okkur. Mér líst mjög vel á þetta verk. Þetta á eftir að verða skemmtilegt,“ segir lægstbjóðandinn Óskar Sigvaldason, framkvæmdastjóri Borgarverks.

-Hvenær sjáið þið fyrir ykkur, ef þið fáið verkið, að þið munið byrja?

„Það er í raun og veru bara eftir tvo þrjá mánuði, eitthvað svoleiðis. Það mun taka svona mánuð að ganga frá samningum. Og svo þarf að græja tæki vestur.“

Og kveðst ekki í vafa um að þeir fái verkið.

„Verkið er upp á tólfhundruð milljónir. Fyrirtækið veltir á ári nærri fjórfalt þeirri upphæð. Þannig að ég tel okkur ráða auðveldlega við þetta,“ segir Óskar.

Borgarverksmenn að störfum í Gufudalssveit haustið 2020. Fjær sést yfir á Hallsteinsnes.
EGILL AÐALSTEINSSON

Þessi áfangi nær milli Hallsteinsness og Þórisstaða í utanverðum Þorskafirði og á hann að klárast haustið 2023. Óskar gerir ráð fyrir að vera með 15 til 20 manns að jafnaði í verkinu og að vinnubúðir verði á Hallsteinsnesi.

-Þú býst ekki við að það verði fólk sem hlekki sig við ýturnar hjá ykkur?

„Nei, nei. Ég held að sá tími sé liðinn. Það er búið að ákveða að fara í verkið og þá einhenda sér allir um það – vona ég,“ svarar framkvæmdastjóri Borgarverks.

Heimild: Visir.is