Home Fréttir Í fréttum Norðlenskir verktakar kepptu hart um þjóðveg við Hrafnagil

Norðlenskir verktakar kepptu hart um þjóðveg við Hrafnagil

421
0
Teikning af nýju deiliskipulagi Hrafnagils sýnir nýja legu þjóðvegarins meðfram bökkum Eyjafjarðarár. EYJAFJARÐARSVEIT/TEIKNISTOFA ARKITEKTA, GYLFI GUÐJÓNSSON OG FÉLAGAR

Fjórir norðlenskir verktakar kepptu hart um að fá að leggja nýjan þjóðveg meðfram Hrafnagilshverfi í Eyjafjarðarsveit.

<>

Þegar tilboðin voru opnuð hjá Vegagerðinni í vikunni reyndust þau öll vera undir kostnaðaráætlun.

Lægsta boð áttu G.V. Gröfur ehf. á Akureyri, upp á 373,5 milljónir króna. Það var 75 prósent af áætluðum verktakakostnaði, upp á 496,7 milljónir króna, eða 123 milljónum króna lægra en áætlunin.

Teikning af nýrri legu Eyjafjarðarbrautar vestri meðfram Hrafnagili.
EYJAFJARÐARSVEIT

Næst lægsta boð kom frá G. Hjálmarsson hf. á Akureyri, upp á 471,4 milljónir króna, sem var 94,9 prósent af kostnaðaráætlun. Þriðja lægsta boð áttu Nesbræður ehf., Akureyri, upp á 478,5 milljónir króna, eða 96,3 af áætlun.

Hæsta boð átti Árni Helgason ehf., Ólafsfirði, upp á 489,8 milljónir króna, eða 98,6 prósent af áætluðum kostnaði, að því er fram kemur á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Með verkinu á að flytja Eyjafjarðarbraut vestri austur fyrir þorpið í Hrafnagili. Nýr vegur verður lagður meðfram bökkum Eyjafjarðarár á alls 3,6 kílómetra kafla. Jafnframt verða lagðar nýjar heimreiðar, samtals um 250 metra langar. Tengingar við þorpið verða tvær, önnur norðan við Jólahúsið og hin norðan Bakkatraðar. Tengingu til suðurs verður lokað fyrir akandi umferð.

Verktími er áætlaður rúm tvö ár. Verkinu skal að fullu lokið fyrir 15. júlí 2024.

Hrafnagil er um 13 kílómetra sunnan Akureyrar. Þar búa núna um 300 manns.
EYJAFJARÐARSVEIT

Íbúar Hrafnagils er núna um 300 talsins en alls búa um 1.100 manns í Eyjafjarðarsveit. Sveitarfélagið kynnir um þessar mundir nýtt deiliskipulag sem gerir ráð fyrir liðlega eitthundrað nýjum íbúðum í Hrafnagili. Þar af verða 38 í einbýlishúsum, um 40 í raðhúsum og 26 í fjölbýli. Skipulagið gerir jafnframt ráð fyrir íþróttahúsi á stærð við KA heimilið ásamt körfuboltavelli og hreystivelli.

Heimild: Visir.is