Óskað var eftir því á fundi borgarráðs í morgun að samþykkt yrðu kaup á fasteign í Knarrarvogi 2 fyrir 460 milljónir króna til niðurrifs til að rýma fyrir Borgarlínu.
Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði gegn kaupunum og var málið því ekki afgreitt á fundi borgarráðs í morgun, en fer þess í stað til borgarstjórnar á þriðjudag.
Fram kemur í bókun Sjálfstæðisflokksins vegna málsins að fjárfestingin sé ekki á fjárhagsætlun borgarinnar. Þá skjóti það skökku við að Reykjavík verji hálfum milljarði af skattfé borgarbúa í kaupin, þar sem málefni Borgarlínu séu í sérstöku félagi sem heitir Betri samgöngur ohf.
Í greinargerð vegna kaupanna, sem lögð var fyrir borgarráð, kemur þó fram að gert verði ráð fyrir kaupunum innan gildandi fjárfestingarætlunar.
Lóðarhafi og eigandi fasteigna í Knarrarvogi 2 er Nýja sendibílastöðin hf. og hefur hluthafafundur félagsins samþykkt kauptilboð borgarinnar, að fram kemur í greinargerðinni.
Tilboðið meira en 100 milljónum yfir verðmati
„Þetta kom okkur verulega á óvart. Þetta kom inn á dagskrá borgarráðs í morgun, en þetta hefur ekkert verið rætt og er ekki á fjárhagsáætlun,“ segir Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í samtali við mbl.is.
„Þarna er borgin að kaupa fyrir hálfan milljarð húsnæði á yfirverði, en samt sem áður er félag sem á að sjá um þetta sem heitir Betri samgöngur,“ bætir hann við.
Vísar Eyþór til þess að samkvæmt verðmati tveggja fasteignasala er áætlað söluverð eignarinnar töluvert lægra en það kauptilboð sem Reykjavíkurborg hefur gert núverandi eigendum. En það hljóðar upp á 460 milljónir, líkt og áður sagði. Samkvæmt verðmati er söluverð eignarinnar hins vegar á bilinu 330 til 345 milljónir.
Nauðsynlegt að eignast fasteignirnar
Í greinargerðinni segir að samningateymi Reykjavíkur og lóðarhafa og landeigenda vegna Borgarlínu hafi verið í viðræðum við eigendur fasteigna að Knarrarvogi 2 og Suðurlandsbraut 75 með það að markmiði að Borgarlína komist leiðar sinnar óháð annarri umferð.
Núverandi hugmyndir geri ráð fyrir því að Borgarlína liggi á milli lóða við Sævarhöfða og þaðan yfir í Vogabyggð á svæði við Knarrarvog 2. Til að tryggja þá aðkomu sé talið nauðsynlegt að Reykjavíkurborg eignist þær fasteignir sem standa á lóð Knarrarvogs.
„Maður hefur séð að það er fara gríðarlegur peningur í undirbúning á borgarlínu á meðan strætó hefur haft úr minna að moða. Síðan er verið að bæta í hálfum milljarði á einum morgunfundi,“ segir Eyþór.
Heimild: Mbl.is