Hönnun nýrrar farsóttadeildar er tilbúin og áætlað er að hún verði á Landspítalanum í Fossvogi. Þetta staðfestir heilbrigðisráðherra, en hann segist ekki vita til annars en að vinna við deildina sé í fullum gangi og unnið sé samkvæmt áætlun um að framkvæmdum við deildina ljúki á 5-7 mánuðum.
Alþingi samþykkti nú í árslok fjárframlög til opnunar og reksturs farsóttardeildar á spítalanum. Alls ríflega milljarður á árinu 2022. Bæði heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknir hafa undanfarið talað um að stefnt sé að afléttingum allra sóttvarnaráðstafana á næstunni og sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra á föstudaginn að m.v. stöðuna í dag gæti það orðið um næstu mánaðarmót.
Er þá þörf á deild sem þessari núna?
„Já það var metið þannig að þörf væri á þessari deild og ég tel að það hafi ekki breyst,“ segir Willum í samtali við mbl.is og bætir við að uppbygging hennar og rekstur séu fjármögnuð á fjárlögum þessa árs.
Eins og mbl.is greindi frá í síðasta mánuði var gert ráð fyrir að deildin yrði staðsett á deild B1 í Fossvogi, en hún hýsir í dag sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, sálgæslu (kapellu og skrifstofu sjúkrahúsprests) og einnig dagdeild fyrir B7-deildina.
Þar yrði bæði legudeild og dag- og göngudeildarþjónusta. Var horft til þeirrar staðsetningar m.t.t. einangrunar og aðgengis. Ekki var þó ljóst hvað yrði um þá þjónustu sem er þar fyrir.
Í framhaldinu ræddi mbl.is við yfirsjúkraþjálfara Landspítalans sem sagði að engine lausn lægi fyrir en að finna þyrfti pláss. Sagði hún erfitt að ímynda sér að starfsemin færist í húsnæði utan Landspítalans í Fossvogi enda sinni starfsfólkið sjúklingum sem þar liggi inni, eins og annað heilbrigðisstarfsfólk sem þar starfar.
Heimild: Mbl.is