Home Fréttir Í fréttum Verulegir annmarkar voru á vinnulagi og eftirliti við stækkun skóla

Verulegir annmarkar voru á vinnulagi og eftirliti við stækkun skóla

248
0
Grunnskólinn í Borgarnesi. Ljósm. Skessuhorn/mm.

Saminn hefur verið verkferill til að slíkt endurtaki sig ekki í framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins

<>

Byggðarráð Borgarbyggðar tók í morgun til umfjöllunar skýrslu vegna úttektar á framkvæmdum við stækkun og endurbætur á Grunnskólanum í Borgarnesi, sem fram fór á árunum 2014-2020.

Í skýrslunni kemur fram að verulegir ágallar hafi verið á vinnulagi og eftirliti með framkvæmdinni.

Nýir verkferlar verða teknir upp fyrir framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins í framtíðinni, en framundan er meðal annars að ráðast í skólabyggingu á Kleppjárnsreykjum og íþróttahús í Borgarnesi. Byggðarráð bókaði eftirfarandi:

„Á síðasta ári lagði byggðarráð til að farið yrði í hlutlausa úttekt á ferli og eftirliti með framkvæmdum við húsnæði Grunnskólans í Borgarnesi, og var KPMG ráðið í verkið.

Úttektarskýrslan liggur nú fyrir og ljóst er að annmarkar voru á vinnulagi og eftirliti stjórnsýslunnar allt frá upphafi framkvæmda árið 2014.

Má þar helst nefna að ekki lá fyrir í upphafi með ítarlegum hætti hlutverk og ábyrgð byggingarnefndar, stjórnenda og eftirlits og þar af leiðandi skorti yfirsýn og ábyrgð á stöðu verkefnis í heild sinni.

Ekki var gætt með fullnægjandi hætti að gildandi innkaupareglum sveitarfélagsins hvað varðar útboðsskyldu, varðandi einstaka þætti framkvæmdarinnar og útboðsgögn voru ekki unnin með fullnægjandi hætti.“

Þá segir í bókuninni að með skýrslunni hafi komið skýrt fram hvaða atriði það voru sem fóru úrskeiðis við framkvæmdina og telur sveitarfélagið nauðsynlegt að gera úrbætur á því ferli sem hefur verið við framkvæmdir.

„Á síðasta ári hófst vinna við að skoða annmarka við ferli og eftirlit framkvæmda sveitarfélagsins og í framhaldinu hefur verið unninn verkferill sem útskýrir hlutverk, ábyrgð og eftirlit allra aðila en ákveðnar úrbætur hafa þegar verið gerðar.

Byggðarráð hefur á þessum fundi samþykkt að farið verði eftir framlögðum verkferli þar sem tekið hefur tillit til þeirra athugasemda sem KPMG gerði í framangreindri úttekt.“

Heimild: Skessuhorn.is