Fastanefnd Bernarsamningsins um verndun tegunda og búsvæða átelur íslensk stjórnvöld fyrir framgöngu sína í tengslum við vegagerð um Teigsskóg.
Á fundi nefndarinnar 2. desember síðastliðinn var fullyrt að stjórnvöldum bæri ekki aðeins að fylgja íslenskum lögum og reglum í framkvæmdum sem þessum, heldur einnig tilmælum alþjóðlegra samninga um náttúruvernd.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vísaði tveimur kærum vegna vegaframkvæmdanna frá í fyrrahaust. Þá var ekki fallist á kröfu kærenda að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan skorið var úr kærunum.
Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, sagði á þeim tíma að það kæmi sér ekki á óvart að sú leið hafi verið valin. „Þetta hefur verið mjög algengt að það er framkvæmdaaðili sem fær að njóta vafans en ekki náttúran,“ sagði hann í viðtali við fréttastofu í fyrrasumar.
Mat á áhrifum vegaframkvæmda á náttúrufar við Breiðafjörð átti að fara fram áður en framkvæmdir hófust, fyrr á árinu. Á fundi nefndarinnar fyrr í mánuðinum lofuðu íslensk stjórnvöld að bæta ráð sitt.
Jafnframt óskuðu þau eftir því að þar sem framkvæmdir væru hafnar, yrði við matið lögð áhersla á mótvægisaðgerðir og aðgerðir til að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdanna.
Nú stendur til að meta áhrif framkvæmdanna á næsta ári, og óskar fastanefndin eftir því að Fuglavernd, Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands aðstoði stjórnvöld við undirbúning og framkvæmd matsins.
Heimild: Ruv.is