Home Fréttir Í fréttum Ný Valhöll án samráðs við Þingvallanefnd

Ný Valhöll án samráðs við Þingvallanefnd

90
0
Thingvellir National Park © Einar Á.E.Sæmundsen

Nefndarmaður Þingvallanefndar furðar sig á þingsályktunartillögu forsætisráðherra um byggingu nýrrar Valhallar á Þingvöllum. Slíkt sé í andstöðu við stefnu nefndarinnar, og ekkert samráð hafi verið haft við hana.

<>

Forsætisráðherra lagði fram þingsályktunartillögu í vikunni, þar sem lagt er til að byggt verði við Alþingishúsið, lokið verði við byggingu húss íslenskra fræða, og ný Valhöll reist á Þingvöllum. Ríkisstjórnin hefur afgreitt tillöguna, en hún hefur ekki verið afgreidd af þingflokki Sjálfstæðismanna, og ekki verið birt opinberlega.

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og nefndarmaður Þingvallanefndar, segir farið framhjá nefndinni. „Þetta er ekki í þeim anda sem nefndin hefur verið að vinna,“ segir Svandís. „Þessi tillaga forsætisráðherra, sem ég hef heldur ekki séð, ef að hún snýst um endurbyggingu Valhallar, þá er það ekki í samræmi við stefnumörkun Þingvallanefndar, og má þá auðvitað bara velta fyrir sér til hvers Þingvallanefnd sé. En forsætisráðherra hefur sýnt bæði í þessu og svo ótal mörgu öðru að hann er kannski ekki mjög upptekinn af forminu, heldur er meira með svona sóló-tilþrif.“

Svandís segir ekkert nýtt í því að bætur vegna bruna Valhallar verði nýttar til uppbyggingar á Þingvöllum. „Það hefur legið fyrir hjá Þingvallanefnd að bæturnar myndu nýtast til hóflegrar uppbyggingar á Þingvöllum. Þannig að það kemur í sjálfu sér ekki á óvart, og er ekki vegna rausnar ráðherrans.“

Formaður Þingvallanefndar, Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra og þingmaður Framsóknarflokks, segir tillöguna vel samræmast stefnu nefndarinnar. „Við höfum verið að vinna að uppbyggingu Þingvalla og horft til framtíðar, Þingvallanefndin, í samvinnu við forsætisnefnd Alþingis, og aðaluppbyggingin á að fara fram á Hakinu, til að taka á móti hinum mikla straum ferðamanna. En síðan er alltaf gert ráð fyrir, og líka í okkar tillögum, að á Völlunum séu haldnar okkar hátíðarsamkomur, eins og hefur verið gert frá örófi alda.“

Ákvörðun um staðsetningu slíkrar móttöku hafi ekki legið fyrir. „Við þurfum einhverja aðstöðu fyrir þegar stórhátíðir eru haldnar, hvar nákvæmlega það hús yrði staðsett, vorum við ekki búin að taka ákvörðun um, svo því sé nú alveg til skila haldið.“

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sat síðasta fund nefndarinnar. Hún segir hugmyndir um uppbyggingu á svæðinu hafa verið ræddar lauslega, en engin formleg ákvörðun verið tekin. Tillaga forsætisráðherra hafi ekki verið kynnt fundinum.