Home Fréttir Í fréttum Deiliskipulag hafið vegna Hvammsvirkjunar

Deiliskipulag hafið vegna Hvammsvirkjunar

92
0
Undirbúningur deiliskipulags vegna Hvammsvirkjunar í Þjórsá er hafinn. Alþingi færði virkjunina úr biðflokki í nýtingarflokk í sumar. Skipulagsstofnun ákveður fyrir mánaðamót hvort gera eigi nýtt umhverfismat Hvammsvirkjunar. Nýtt umhverfismat gæti seinkað áætlunum um að gangsetja virkjunina árið 2019.

Umhverfismat Hvammsvirkjunar er frá árinu 2003. Sveitarfélögin Skeiða og Gnúpverjahreppur og Rangárþing ytra eru leyfisveitendur virkjunarinnar. Þau óskuðu eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort endurtaka þyrfti matið í heild eða að hluta, samkvæmt 12. grein laga um mat á umhverfisáhrifum. Þar segir að hefjist framkvæmdir ekki innan tíu ára frá umhverfismati beri að leita álits Skipulagsstofnunar á hvort umhverfismatið haldi gildi sínu, eða forsendur hafi breyst.

<>

Skipulagsstofnun hefur miðað við að ljúka endurskoðuninni 18. nóvember. Frestur til athugasemda rann út í lok september, en samkvæmt heimildum Fréttastofu bíður stofnunin enn eftir síðustu gögnum málsins. Því sé ekki ólíklegt að ákvörðun stofnunarinnar dragist eitthvað, en verði þó ljós fyrir mánaðamót.

Margar vörður á leiðinni

Gangi áætlanir eftir gæti gangsetning Hvammsvirkjunar orðið árið 2019. Margar vörður eru þó á þeirri leið. Ekki er óvenjulegt að umhverfismat geti tekið allt að ári. Breyttar forsendur eru raktar til ferðaþjónustu og búsvæða laxfiska. Hins vegar er talið að forsendur veigamikilla hluta umhverfismatsins séu óbreyttar og því ætti nýtt mat að taka skemmri tíma. Undirbúningur deiliskipulags er hafinn af hálfu sveitarfélaganna. Að sögn skipulagsfulltrúa er sú vinna í sjálfu sér ekki háð umhverfismatinu á meðan það stöðvi ekki framkvæmdina. Sveitarstjórnir bera ábyrgð á deiliskipulagi, sem er að minnsta kosti nokkurra mánaða ferli. Það er nánari útfærsla á aðalskipulagi fyrir afmarkað svæði. Deiliskipulag ber að kynna almenningi og það er einnig háð umsögn Skipulagsstofnunar og umsagnaraðila. Í deiliskipulagi eru skipulagsskilmálar fyrir framkvæmda og byggingarleyfi.

Hvammsvirkjun á að nýta fall Þjórsár neðan Búrfellsvirkjunar. Svæði hennar nær frá svonefndu Yrjaskeri fyrir ofan bæinn Haga í Skeiða og Gnúpverjahreppi, niður fyrir Ölmóðinsey austan við Þjórsárholt. Það er á stærsta aflsvæði Landsvirkjunar, fyrir eru 6 stöðvar sem virkja afl Þjórsár og Tungnaár.

Heimild: Rúv.is