Félagsstofnun stúdenta áformar byggingu nýrra húsa í Skuggahverfi í Reykjavík en í hverfinu hefur FS leigt út íbúðir allt frá árinu 2006.
Í þremur nýjum húsum sem Félagsstofnun stúdenta áformar að byggja í Skuggahverfinu verða 24 leigueiningar en ekki 122 eins og fram kom í frétt Morgunblaðsins sl. laugardag.
Heildarfjöldi leigueininga verður 122 að framkvæmdum loknum. Þetta er hér með leiðrétt og beðist velvirðingar á misherminu.
Forhönnun húsanna er lokið, upplýsir Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta.
Utanhússklæðningar og litir verða í samræmi við byggðina í kring, þök húsa við Vitastíg hallandi með kvistum eins og þekkist í hverfinu en á húsi við Lindargötu verður þak með torfi.
Lóð verður einnig lagfærð og gerð vistleg með útisvæði en engin aðstaða eða gróður er á lóð Skuggagarða í dag, segir Rebekka.
Lindargata 44 verður rifin enda er húsið í slæmu ástandi og óhentugt. Í stað þess kemur hús með 10 stúdíóíbúðum og samkomusal á jarðhæð sem nýtast mun öllum íbúum Skuggagarða. Útlit hússins skal falla vel að stúdentagörðunum sem umlykja það.
Framan við húsið verða settir djúpgámar. Verður lóðin talsvert falllegri og snyrtilegri þegar sorpgámar sem nú eru ofanjarðar á miðri lóðinni hverfa. Þá má reikna með minna ónæði vegna sorplosunar í götunni.
Á Vatnsstíg verður hús nr. 10 rifið, enda ónýtt. Hús á lóð nr. 12 verður fært á lóð nr. 10. Verður það ekki nýtt af FS. FS mun hins vegar byggja tvö ný hús á Vatnsstíg.
Verða þau í samræmi við umhverfið og eldri byggingar á svæðinu. Minjastofnun hefur veitt ráðgjöf/umsögn í gegnum ferlið.