Eigandi Hafnarstrætis 17-19 þarf að greiða verktaka milljónatugi vegna útistandandi krafna sem af verkinu hlutust.
Suðurhús ehf. og Sjöstjarnan ehf., félög Skúla Gunnars Sigfússonar, var með Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir helgi gert að greiða Þarfaþingi hf. tæplega 37 milljón krónur, að frádregnum tæplega sex milljónum sem greiddar höfðu verið inn á kröfuna, auk dráttarvaxta.
Dómur í málinu var fjölskipaður en hann mönnuðu tveir embættisdómarar auk verkfræðings.
Deila málsaðila laut að uppgjöri vegna uppsteypu og frágangi á hóteli við Hafnarstræti 17-19 hér í borg.
Verkið átti að hefjast í byrjun febrúar 2016 og ljúka í byrjun september 2016.
Heildarvirði samningsins sem Suðurhús gerðu við Þarfaþing var tæplega 449 milljónir.
Sjöstjarnan blandast síðan inn í málið þar sem þar er á ferð móðurfélag Suðurhúsa sem tekið hafði á sig sjálfskuldarábyrgð vegna hluta verksins.
Glöggir lesendur hafa mögulega getið sér til um að verkáætlun stóðst ekki, hitt og þetta kom upp á sem varð til þess að tefja verkið, enda hefði tæplega komið til dómsmáls ef allt hefði gengið eins og í sögu.
Fór það svo að verkinu var ekki lokið fyrr en í apríl 2017 og fór lokaúttekt fram þá um sumarið en úttekaraðilar höfðu ýmsar athugasemdir við frágang verksins.
Heimild: Vb.is