Home Fréttir Í fréttum Húsnæðisskortur tefur uppbyggingu á Skagaströnd

Húsnæðisskortur tefur uppbyggingu á Skagaströnd

95
0
Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Húsnæðisskortur stendur íbúaþróun og atvinnuuppbyggingu á Skagaströnd fyrir þrifum.
Mikil ásókn er þar í íbúðarhúsnæði, en ekkert laust.
Sveitarfélagið hefur meðal annars fellt niður gjöld af byggingalóðum til að liðka fyrir.

Í húsnæðisáætlun sem Sveitarfélagið Skagaströnd birti nýlega kemur meðal annars fram að þar þurfi að byggja 2-4 íbúðir á ári fram til ársins 2026 til að uppfylla þörf fyrir nýtt íbúðarhúsnæði og koma á nauðsynlegu jafnvægi.

<>

Stendur nauðsynlegri þróun fyrir þrifum

Alexandra Jóhannesdóttir, sveitarstjóri, segir að ungir Skagstrendingar sæki í auknum mæli að flytja heim og þá vanti fólk á staðinn til að sinna auknum atvinnutækifærum.

„Ég held að það sé sama staða hér og á mörgum öðrum stöðum, að það stendur okkur fyrir þrifum að geta ekki veitt fólki fullnægjandi húsnæðiskost.

Við getum tæplega aukið mikið við atvinnuþróun á svæðinu ef við erum ekki með húsnæði fyrir fólk til þessa að geta fjölgað þessum störfum.“

Felldu niður gatnagerðargjöld á 14 lóðum

Eins og víðar í dreifbýli er söluverð á íbúðarhúsnæði lægra en byggingarkostnaður sem dregur úr áhuga verktaka á að byggja íbúðir.

Til að liðka fyrir felldi sveitarfélagið niður gatnagerðargjöld á 14 lóðum við tilbúnar götur og stendur það tilboð út kjörtímabil núverandi sveitarstjórnar.

Þá eru viðræður við leigufélagið Bríeti um byggingu leiguhúsnæðis.

Bankarnir tregir til að veita húsnæðislán í dreifbýli

Enn eitt sem dregur úr möguleikum á nýbyggingum segir Alexandra vera áhugaleysi bankanna á að veita húsnæðislán til fólks í dreifbýli.

„Það er svosem það sem hefur verið erfiðast fyrir fólk. Það nær ekki að fjármagna ef það vill fara í einhverjar framkvæmdir.

Og það er málefni sem er ekki nýtt af nálinni og eitthvað sem þarf að halda áfram að þrýsta á að taki einhverjum breytingum.

Eða það séu einhver önnur úrræði fyrirfólk sem vill fara í uppbyggingu á landsbyggðinni.

En það er ekki greiður aðgangur að fjármagni, það er alveg ljóst.“

Heimild: Ruv.is