Nú er verið að leggja lokahönd á aðgerðaáætlun um viðgerðir og viðhald í Fossvogsskóla fyrir framkvæmdir sem munu hefjast í haust. Frá þessu greinir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, í grein í Fréttablaðinu í dag.
Skúli segir í grein sinni að það sé veruleiki um allt land að reglulega komi upp mygla og rakaskemmdir í húsnæði hins opinbera.
„Dæmin hrannast upp af skólahúsnæði þar sem mygla hefur greinst t.d. í Kársnesskóla og leikskólanum Austurkór í Kópavogi, Varmárskóla í Mosfellsbæ, Lundarskóla, Brekkuskóla og Oddeyrarskóla á Akureyri, Grundaskóla á Akranesi og Nesskóla í Neskaupsstað.
Í Reykjavík hafa komið upp mál þar sem mygla hefur fundist og hefur húsnæði Fossvogsskóla verið þar efst á baugi og leikskólinn Kvistaborg sem staðsettur er steinsnar frá,“ segir Skúli.
Hann segir að mikil áhersla hafi verið lögð á að auka auka fjármagn í viðhald og endurbætur skólahúsnæðis borgarinnar undanfarin ár eftir þrengingatíma í kjölfar bankahruns og segir að undanfarin ár hafi fjárveitingar til almenns viðhalds grunnskóla og leikskóla í borginni þrefaldast úr tæpum 700 milljónum í 2.100 milljónir á hverju ári.
Alls fer skóla- og frístundastarfið fram í um 170 stofnunum og nálægt 300 byggingum í borginni og eru að sögn Skúla fá dæmi þar sem fundist hefur mygla eða alvarlegar rakaskemmdir.
Heimild: Frettabladid.is