Framkvæmdir við nýja brú yfir Ölfusá verða boðnar út fyrir áramót og hefjast á fyrri hluta næsta árs. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Kostnaður við framkvæmdirnar er metinn á um 6 milljarða króna.
Áætlað var að innheimta 400 krónur fyrir hverja ferð yfir nýja brú en í samtali við Morgunblaðið segir ráðherra íbúum á Suðurlandi mikið í mun að fá nýja brú og þyki veggjöld ekki tiltökumál.
„Viðmiðið var að veggjaldið yrði um 400 krónur en nú heyrist mér á fólki að því þyki 500 til 700 króna gjald ekkert mál.
Með ögn hærra gjaldi verður framkvæmdin greidd niður fyrr en ella og því eru margir möguleikar hvað varðar fjármögnun í skoðun jafnhliða útboðsgerð,“ segir Sigurður Ingi.
Heimild: Visir.is