Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur nú samþykkt að auglýsa skipulagslýsingu fyrir tillögu að breytingu á aðalskipulag svo unnt verði að gera baðlónið að raunveruleika.
Fram kemur í skipulagslýsingu vegna baðlónsins að gert sé ráð fyrir heitu lóni ásamt heitum pottum, gufuböðum og innbyggðum hraunhelli.
Sömuleiðis veitingasölu og aðra þjónustu auk þess sem möguleiki sé á fimmtíu herbergja hóteli.
Það er fyrirtækið Lava Spring Vestmannaeyjar sem stendur að baðlónsverkefninu og gerði það viljayfirlýsingu um samstarfs við Vestmannabæ vegna verkefnisins í fyrra.
„Megin markmið framkvæmdarinnar er að byggja upp aðlaðandi áfangastað á eynni með einstakri snertingu við náttúrperlur svæðisins,” segir í skipulagslýsingunni.
Gert er ráð fyrir að baðlónið verði um 1.400 fermetrar og þjónustubyggingin 1.000 fermetrar.
„Þá eru uppi framtíðarhugmyndir um að reisa hótel í tveimur byggingum sem gætu verið staðsetar í hlíðinni,” segir í skipulagslýsingunni.
Útsýnið úr lóninu er sagt mikilfenglegt. Horft sé yfir Vestmannaeyjabæ, á aðrar eyjar og Eyjafjallajökul.
„Áherslan verður að upplifun gesta við umhverfið og einstaka náttúruna sem umlykur svæðið.
Horft er til að varðveita fágætt landslagið sem kostur er og mun byggingin falla hógvær inn í landið til að lágmarka sjónræn áhrif,” segir ennfremur í skipulagslýsingunni.
Baðlónið á að vera ofan við Skansinn á hrauni sem rann til sjávar í Vestmannaeyjagosinu árið 1973.
Segir að tekið verði efni í Skansfjöru en þó ekki meira en safnist vegna hafstrauma.
Heimild: Frettabladid.is