Litlar sem engar líkur eru á því að fjölbýlishús á Íslandi geti hrunið fyrirvaralaust, eins og gerðist í Miami á Flórída í Bandaríkjunum á fimmtudag í síðustu viku.
Alls eru 12 látnir og 149 er saknað, eftir að fjölbýlishús hrundi að hluta að nóttu til. Enginn hefur enn fundist á lífi. Húsið var byggt árið 1981.
Ástgeir Rúnar Sigmarsson, sérfræðingur í öryggi mannvirkja hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, segir að hús hér á Íslandi séu almennt mjög sterklega byggð. „Hús á Íslandi eru hönnuð fyrir íslenskar aðstæður.
Flestar byggingarnar eru hannaðar til að standa af sér mikla veðurofsa, snjó og náttúruvá á borð við jarðskjálfta. Vegna þessara skilyrða eru gerðar ríkar kröfur á hönnun bygginga. Almennt eru hús á Íslandi mjög sterklega byggð,“ segir Ástgeir.
Ástgeir veit ekki til þess að hús í rekstri hafi beinlínis hrunið hér á landi. Hann segir að ef mannvirkjum er vel viðhaldið dragi það úr líkum á frekari skemmdum.
„Það er gott að hafa það í huga, ef það eru vísbendingar um að komið sé að viðhaldi, að fá fagaðila til að meta það og veita ráðgjöf hvernig sé best staðið að viðhaldinu.
Heimild: Frettabladid.is