Húsið, sem upphaflega hýsti hraðfrystistöðvar, hefur staðið autt frá því að bankinn flutti höfuðstöðvar sínar í Kópavog árið 2017 eftir 22 ár við Kirkjusand.
Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, segir í samtali við fréttastofu að ferlið hafi gengið hægar en vonast var eftir.
Fyrr á árinu var greint frá því að verðlaunatillaga um deiliskipulag hafi verið kynnt skipulagsráði Reykjavíkur og talið var að niðurrif gæti hafist síðsumars. Íslandssjóðir stýra uppbyggingu á svæðinu.
Borgin gefur, að sögn Kjartans, ekki grænt ljós á niðurrif fyrr en skipulagið hefur verið samþykkt.
Nú sé gert ráð fyrir að hægt verði að kynna skipulagið í haust og hefja niðurrifið þar á eftir. Eins og staðan sé í dag sé ekki hægt að segja nánar til um tímasetningu.
Heimild: Ruv.is