Borgarverk og Hafnir Ísafjarðarbæjar skrifuðu undir samning um stálþilsrekstur í Ísafjarðarhöfn.
Með þessari framkvæmd lengist viðlegukantur á Sundabakka um 300 metra og því möguleiki að taka á móti mun fleiri og jafnframt stærri skipum en áður.
Það voru þeir Óskar Sigvaldason frá Borgarverki og Guðmundur Magnús Kristjánsson hafnarstjóri sem skrifuðu undir samninginn föstudaginn 4. júní, en verkið felst í því að reka niður 254 tvöfaldar stálþilsplötur, steypa 99 akkerisplötur, steypa 380 m langan kantbita með pollum, kanttré og stigum.
Þá felst einnig í verkinu jarðvinna en fylla þarf upp fyrir innan þil um 26.900 m³.
Reiknað er með að stálþilsrekstur hefjist um miðjan júlí.
Grein um framkvæmdina var birt í 3. tbl. Framkvæmdafrétta. Þar var rætt við Guðmund hafnarstjóra sem sagði framkvæmdina mikilvæga.
„Vöxtur í komum skemmtiferðaskipa á Ísafirði hefur verið 20-25% á ári síðastliðin áratug eða svo. Oft á tíðum hefur höfnin verið mjög þétt setin og vantað hefur pláss. Við erum fyrst og fremst að standa í þessum framkvæmdum til að geta tekið öll skip að bryggju, en við höfum hingað til ekki getað tekið stærstu skipin, og þau hafa þá þurft að liggja við akkeri utar í firðinum.“
Hann bendir á að með því að ná allflestum skipunum að bryggju verði hægt að auka tekjur hafnarinnar mikið. „Við fáum 60% meiri tekjur ef skipin eru við bryggju frekar en að þau liggi við akkeri.“
Guðmundur segir skemmtiferðaskipafélögin ávallt fremur kjósa að leggja við bryggju. Þá hafi einnig sýnt sig að farþegar séu líklegri til að koma í land ef þeir geta gengið frá borði.
Fyrstu áætlanir voru að áfangaskipta framkvæmdinni og hefði viðlegukanturinn þá ekki verið tilbúinn fyrr en 2024-2025. „Við njótum hins vegar góðs af þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gefa í í opinberum framkvæmdum.
Nú stendur til að viðlegukanturinn verði tilbúinn eftir mitt næsta ár. Þetta mun vissulega flýta fyrir því að við getum aukið tekjur okkar á ný,“ segir Guðmundur en höfnin varð af rúmum 160 milljónum króna í fyrra þegar allar skipakomur duttu niður.
Nánar um framkvæmdina
Framkvæmdin við Sundabakka á Ísafirði er þrískipt. Í fyrsta lagi bygging á um 300 m löngum stálþilskanti, í öðru lagi dýpkun á höfninni niður í 11 metra og í þriðja lagi steypa á þekju.
Jarðvinna við nýja kantinn, bygging fyrirstöðugarðs meðfram þilinu, var boðin út og unnin í vetur til að undirbúa stálþilsreksturinn sem Borgarverk sér um.
Dýpkunin upp á 400 þúsund rúmmetra verður líklega boðin út í sumar og er þetta með stærri dýpkunarframkvæmdum við Íslandsstrendur. Þegar dýpkun er lokið á dýpið við viðlegukantinn að vera 11 metrar.
Steypt þekja um 6.000 m² ásamt raforkuvirkjum verður boðin út veturinn 2022 og verkið unnið sumarið 2022.
Reiknað er með að verkinu öllu ljúki að fullu haustið 2022. Þá verður hægt að taka á móti skipum sem eru allt að 330 metra löng og með djúpristu upp á 9,5 metra.
Heimild: Vegagerðin