Áætlaður hagnaður Kaldalóns af sölu á dótturfélaginu U26 ehf., umfram bókfært verð, nemur 60 milljónum króna eftir skatta.
Kaldalón hefur samþykkt tilboð í allt hlutafé dótturfélags síns U26 ehf, sem er að ljúka við byggingu á 16 íbúðum í Urriðaholtsstræti 26 í Garðabæ. Áætlað er að hagnaður Kaldalóns af viðskiptunum umfram bókfært verð nemi um 60 milljónum króna eftir skatta, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Heildarvirði fasteignarinnar í viðskiptunum er 855 milljónir króna og til frádráttar koma skuldir félagsins. Við söluna lækka skuldir samstæðu Kaldalóns um 540 milljónir króna. Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um endanlega kaupsamningsgerð og samþykki stjórnar Kaldalóns.
Kaldalón hefur þá selt 33 af 51 íbúð sem félagið er nú með í byggingu í Urriðaholti. Áætlað er að þær íbúðir sem eftir eru á vegum félagsins í Urriðaholti komi á markað í sumar.
Kaldalón tilkynnti fyrr í mánuðinum um sölu á dótturfélagi sínu U 14-20 ehf., sem er með fasteignaverkefni í Vogabyggð.
Samhliða þeirri sölu mun dótturfélag Kaldalóns kaupa Lantan ehf., sem á fasteignir að Laugavegi 32-36 sem m.a. hýsa starfsemi Sand Hótels, og félagið VMT ehf. sem á fasteignir að Vegamótastíg 7 sem hýsir starfsemi Room with a View Hotel.
Heimild: Vb.is