Home Fréttir Í fréttum Erfiðar aðstæður við byggingu Kröflulínu 3

Erfiðar aðstæður við byggingu Kröflulínu 3

119
0
Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Framkvæmdir við Kröflulínu 3, sem nú eru hafnar aftur eftir veturinn, fara að miklu leyti fram við erfiðar veðuraðstæður á Möðrudalsöræfum.
Mikið álag er á erlendum verkamönnum við framkvæmdirnar. Þá hefur faraldurinn sett strik í reikninginn hjá erlendum verktaka við línuna.

Kröflulína 3 liggur frá Kröflu austur í Fljótsdal og erlendi verktakinn Elnos er langt kominn með að reisa öll 328 möstur línunnar. Sú vinna fer fram austur í Fljótsdal þessa dagana. Þá er tæplega hálfnað að draga rafstrenginn í möstrin, en frá byrjun apríl hefur sá hluti verksins farið fram á Möðrudalsöræfum.

<>

Segir vetraraðstæður reyna mjög á mannskapinn

Aðstæður uppi á fjöllum eru alls ekki upp á það besta. Þar er enn hálfgerður vetur og talsverður snjór.

Allt þetta gerir verktakanum erfitt fyrir. „Já, ég er ekki viss hvort það er komið vor eða ennþá vetur,“ segir Nedeljko Vujicic, staðarstjóri Elnos við framkvæmdirnar.

Við línuna eru um 50 starfsmenn frá Bosníu/Herzegovínu, Serbíu og Makedóníu og hann segir þessar aðstæður reyna mjög á mannskapinn. „En við erum með góða fagmenn og vel þjálfaða, sem eru tilbúnir að takast á við þessar aðstæður.“


Mynd: RÚV – Ágúst Ólafsson

Mikill tími farið í snjómokstur

Mikill tími hefur farið í snjómokstur til að komast um vinnusvæðið. „Já það hefur oft þurft að byrja á því að opna flestar leiðir hjá okkur til þess að hægt væri að hefja vinnuna. Þetta er búið að vera svolítið gegnumgangandi til þess að halda þessu opnu,“ segir Hermann Torfi Björgólfsson, eftirlitsmaður Landsnets við gerð Kröflulínu 3.

Erlendir starfsmenn fara reglulega í sóttkví

Ofan á allt þetta hafa erlendir starfsmenn reglulega þurft að fara í sóttkví. „Allir sem koma til landsins þurfa að fara í sóttkví í lágmark fimm daga og verða að geta framvísað vottorði upp á tvö neikvæð PCR próf,“ segir Vujicic. „Þá þurfa þeir í skimun áður en þeir fara hér inn á vinnusvæðið.“

Þarf útsjónarsemi til að geta haldið áætlun

Faraldurinn olli töfum í fyrra og í vetraraðstæðum í byrjun þessa árs þarf útsjónarsemi til að halda áætlun.

„Ég held að það hafi nú ekki tafið neitt,“ segir Hermann. „Við erum nokkurn veginn á áætlun. Verkþættirnir flytjast bara aðeins til eftir því hvernig veðrið stendur.“

„En þetta er væntanlega dýrt og verður dýrara að þurfa að vera með verktaka í snjómokstri?“

„Já, já, það kostar. En það er skammur tími sem menn hafa til þess að vinna þetta á Íslandi. Þannig að það verður að vinna sér það í haginn með snjómokstri og öðru.“

Heimild: Ruv.is