Sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins áætla að 8 þúsund nýjar íbúðir komi inn á markaðinn árin 2021-24.
Formað er að 8 þúsund fullbúnar íbúðir komi á markað á höfuðborgarsvæðinu fyrir árslok 2024. Meirihlutinn verður í Reykjavík, en Garðabær bætir við langflestum íbúðum hlutfallslega, auk þess að vera með langstærsta einstaka uppbyggingarreitinn.
Gert er ráð fyrir mun fleiri íbúðum á markað árlega en síðustu ár og áratugi. Metnaðarfullum áætlunum og fögrum fyrirheitum þarf þó að taka með fyrirvara; uppbyggingaraðilar eiga það til að vera óhóflega bjartsýnir, og síðasta áætlun stóðst ekki.
Í þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins sem verkfræðistofan VSÓ vann fyrir Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er tekinn saman sá fjöldi sem sveitarfélögin sjálf áætla að verði fullbyggður út tímabilið, að undanskildum Kjósarhreppi sem skilaði ekki tölum.
Alls eru taldar til 8.030 íbúðir, sem jafngildir 8,9% fjölgun íbúða yfir tímabilið, eða 34 íbúðum á hverja þúsund íbúa. Í áætluninni kemur fram að í þróunaráætlun 2015-2018 hafi sveitarfélögin gert ráð fyrir 7.500 íbúðum, áætlunin „tónað“ þann fjölda niður í slétt 7 þúsund, en þegar upp var staðið hafi þær aðeins orðið 5 þúsund. Þess er þó getið að árin eftir hafi á móti verið slegið met í þessum efnum.
Helmingurinn í Reykjavík
Meirihlutinn, 4.100 íbúðir, verður í Reykjavík, sem er langt yfir meðalfjölda bæði síðustu 4 ár og til lengri tíma. Garðabær og Mosfellsbær munu einnig byggja vel yfir langtímameðaltali, en þó svipað og síðustu ár í tilfelli Garðabæjar, og vel undir því hjá Mosfellsbæ.
Hjá Hafnarfirði er því öfugt farið, byggt verður ríflega tvöfalt magn árlega á við síðustu ár, en þó aðeins undir langtímameðaltali. Í Kópavogi verða byggðar rétt á annað þúsund íbúða, svo til sama magn og í Garðabæ þótt um mun stærra sveitarfélag sé að ræða, og er það rétt undir meðaltali bæði síðustu ára og til lengri tíma hjá Kópavogi.
Hætta á bjartsýni og giskað í eyður
Áætlunin ítrekar að aðeins sé um að ræða fullgert húsnæði sem hefur hlotið lokaúttekt, auk þess sem ýmsir fyrirvarar eru gerðir við tölurnar. Þær byggi á ófullkomnum upplýsingum og ráðgjafar verkefnisins hafi þurft að „giska í ákveðnar eyður“ eftir bestu getu „og stundum tilfinningu“ í samráði við skipulagsfulltrúa.
Þá þurfi að hafa hugfast að uppgefnar tímasetningar frá uppbyggingaraðilum geti verið ónákvæmar, og „ákveðin hætta á að þær séu á bjartsýnni nótunum frekar en hitt,“ eins og að orði er komist.
Í áætluninni er lagt mat á íbúðaþörf næstu ára. Mannfjöldaþróun er þar metin nokkru hóflegri en spá Hagstofunnar frá 2019, og er það byggt á þeirri tilgátu að fólksfjölgun verði minni síðustu ár en árin á undan sökum kórónukreppunnar.
Auk uppgefinna talna sveitarfélaganna er áætluð fjölgun íbúa svo metin með tilliti til metinnar íbúðaþarfar. Sá fjöldi er nokkru lægri, tæpar 6.200 íbúðir, en athygli vekur að gert er ráð fyrir um helmingi minni uppbyggingu í Hafnarfirði og aðeins tæpum 60% í Mosfellsbæ, samanborið við það sem áformað er samkvæmt innsendum tölum sveitarfélaganna. Í öðrum sveitarfélögum er gert ráð fyrir 80-90% áformaðrar uppbyggingar.
Heimild: Vb.is