Vegfarendur við Austurvöll hafa eflaust tekið eftir því að hlaðnir veggir við torgið hafa verið teknir niður. Í stað þeirra verður hellulagt og blómabeðum komið fyrir.
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar og staðgengill formanns skipulags- og samgönguráðs, segir að hugmyndin um að opna betur inn á torgið hafi reglulega komið upp og nú hafi hún loksins orðið að veruleika.
Í umfjöllun um áform þessi í Morgunblaðinu segir hann að upprunalega hafi veggirnir verið hlaðnir til að skýla Austurvelli fyrir umferð bíla í gegnum Vallarstræti. Lokað hefur verið fyrir umferð í gegnum Vallarstræti í áratugi og ekki er stefnt að því að opna fyrir hana aftur. Veggirnir hafa því staðið í ákveðnu tilgangsleysi við torgið lengi.
Heimild: Mbl.is