Home Fréttir Í fréttum Tvö ný hús fyrir heimilislausa tilbúin á Akureyri

Tvö ný hús fyrir heimilislausa tilbúin á Akureyri

63
0
Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Tvö ný smáhýsi fyrir heimilislaust fólk hafa verið tekin í notkun á Akureyri og áætlað að byggja fleiri á sama svæði. Formaður velferðarráðs bæjarins telur að loks hafi náðst sátt um hvar hús af þessu tagi skuli vera á Akureyri.

Það hefur ekki gengið þrautalaust að finna varanlegt úrræði fyrir heimilislausa á Akureyri og má segja að í þriðju tilraun á fáum árum hafi það nú tekist. Veturinn 2017 var fallið frá því að reisa smáhýsi fyrir heimilislausa á iðnaðarlóð við Norðurtanga. Ári síðar voru kynntar hugmyndir um smáhýsi í Hagahverfi, en eftir mótmæli íbúa þar var sú ákvörðun einnig dregin til baka.

<>

Telur að sátt ríki um húsin á þessum stað

Tvö ný 55 fermetra einbýlishús eru nú risin, af fjórum sem skipulögð eru við Sandgerðisbót. Þá hefur bærinn keypt hús í næsta nágrenni, þar sem þrjár íbúðir verða endurnýjaðar í sama tilgangi. „Ég held að við séum í góðri sátt við alla Akureyringa að staðsetja hús hér, sem er bara til fyrirmyndar að mínu mati,“ segir Heimir Haraldsson, formaður velferðarráðs Akureyrar.

Annað húsið þegar komið í notkun

Hann segir að á milli tíu og tuttugu einstaklingar geti þurft á slíku úrræði að halda á Akureyri. Það sé þó misjafnt milli ára. „Annað húsið er komið í notkun og við bíðum eftir næsta íbúa. Þetta er húsnæði sem er þá hugsað fyrir hóp sem þarf á stuðningi að halda og það er það sem hann fær frá velferðasviði og starfsfólkinu þar.“

Ætti að vera húsnæði fyrir alla í nýjum hverfum

Þessi hús eru byggð í jaðrinum á nýskipulögðu íbúðahverfi, Holtahverfi norður. Heimir telur heppilegra að fara þessa leið svo íbúar viti að hverju þeir ganga þegar þeir flytja í nýtt hverfi. „Og kannski ættum við að hafa það í huga þegar við skipuleggjum ný hverfi að þar sé til staðar hús og húsnæði fyrir alla. Við ætlum að byggja bæ allra Akureyringa, alveg óháð því hvað stöðu þeir hafa í samfélaginu.“

Heimild: Ruv.is