Góður gangur er á vinnu við uppsteypu og undirstöður í grunni meðferðarkjarnans við byggingu nýs Landspítala.
Unnið er meðal annars af fullum krafti þessa dagana að mótauppslætti og járnabendingu en undirstöðurnar voru steyptar í síðustu viku að því er fram kemur í Framkvæmdafréttum NLSH um stöðu og framgang verkefnisins.
Haft er eftir Eysteini Einarssyni, staðarverkfræðingi hjá NLSH, að helstu verkþættir sem nú eru í gangi við uppsteypuna séu áframhaldandi þrif á klöpp og þrifalagssteypur. Samhliða þessu standi yfir vinna við jarðskaut og fljótlega hefjist síðan vinna við fyllingar og lagnir í grunninum.
Haft er eftir Kai Westphal, framkvæmdastjóra steypu, framleiðslu og dreifingu hjá Steypustöðinni, að gengið hafi vel að steypa fyrstu alvöru undirstöðurnar sem sé stór áfangi í verkefninu.
Nú er Steypustöðin búin að afgreiða milli 1.800 og 1.900 rúmmetra frá upphafi í þetta verkefni við Landspítalann.
Heimild: Mbl.is