Tvær fyrstu verslanirnar í nýjum verslunarkjarna, Norðurtorgi við Austursíðu 2 á Akureyri, verða opnaðar 1. júní næstkomandi.
Framkvæmdir við endurbætur og stækkun á húsinu hafa staðið yfir frá því í fyrrasumar og hafa á bilinu 30 til 50 manns verið að störfum þar undanfarna mánuði.
Lóðin við Austursíðu er alls fjórir hektarar að stærð og er hún í eigu félagsins Klettáss sem stendur fyrir framkvæmdum við byggingu verslunarkjarnans.
Pétur Bjarnason, annar af eigendum Klettáss, segir Sjafnarhúsið við Austursíðu hafa verið illa nýtt undanfarin ár.
Húsið er kennt við samnefnda efnaverksmiðju sem þar starfaði í eina tíð, en undanfarin ár hefur þar verið harla lítil starfsemi.
„Þetta er frábær staðsetning og það var hún sem við horfðum fyrst og fremst til þegar við hófum framkvæmdir á lóðinni.
Sem stendur er hún norðarlega í bænum, en mun innan fárra ára verða æ meira miðsvæðis og við erum einmitt að horfa fram í tímann með þessum umfangsmiklu framkvæmdum,“ segir Pétur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Áætlun gerir ráð fyrir að kostnaður við allar framkvæmdir á húsnæði og lóð nemi um 2,7 milljörðum króna.
Heimild: Mbl.is