Í dag var byrjað að rífa ÞÞÞ hússins við Dalbraut 6 á Akranesi. Þakið er farið og einungis útveggir standa eftir.
Akraneskaupstaður keypti húsið árið 2014 af Bifreiðastöð Þórðar Þ Þórðarsonar sem byggði í framhaldi sölunnar yfir starfsemi sína með myndarlegum hætti við Smiðjuvelli 15.
Með í þeirri sölu var 12.000 fermetra samliggjandi lóð, sem í dag nefnist Dalbrautarreitur. Á reitnum byggir fyrirtækið Bestla ehf. þrjú fjölbýlishús. Lokið er við eitt þeirra og íbúar fluttir inn.
Í því húsi verður jafnframt samkomusalur og ýmis þjónusta fyrir eldri borgara á Akranesi. Hafnar eru framkvæmdir við hús númer tvö og er áætlað að uppsteypu þess verði lokið í ágústmánuði.
Þegar það hús verður tilbúið mun Bestla hefjast handa við þriðja og síðasta húsið sem fyrirtækið byggir á reitnum a.m.k. í bili.
Það er Leigufélag aldraðra sem er með í gangi niðurrif ÞÞÞ hússins við Dalbraut 6 og byrjar í framhaldinu framkvæmdir við fjórða húsið á þessum hluta Dalbrautarreits.
Á annað hundrað íbúðir verða í þessum fjórum húsum þegar yfir lýkur.
Heimild: Skessuhorn.is