Fasteignaverð í Vestmannaeyjum hefur tvöfaldast frá þriðja ársfjórðungi ársins 2008. Er það í algjörum sérflokki samanborið við önnur byggðarlög á landsbyggðinni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri hagsjá Landsbankans.
Í sveitarfélögunum sem voru skoðuð var fermetraverð hæst á Akureyri eða um 220.000 krónur á fermetrann. Það er 74% af verðinu sem boðið er upp á á höfuðborgarsvæðinu. Lægsta verðið var í Fjarðabyggð eða um 134.000 krónur á fermetrann.
Verðþróun í flestum bæjarfélögum hefur verið sambærileg verðþróun á höfuðborgarsvæðinu ef Vestmannaeyjar eru undanskildar. Önnur bæjarfélög sem litið var á eru Akranes, Reykjanesbær, Fjarðabyggð og Árborg.
Rétt er þó að taka fram að breytingar á verði segja ekki alla söguna um stöðuna á fasteignamarkaði. Hlutfall fjölbýlis og sérbýlis er misjafnt eftir bæjarfélögum og það hefur áhrif á meðalverð þar sem fermetrinn í fjölbýli er yfirleitt dýrari.
Að lokum má nefna að hækkun húsnæðiskostnaður hefur verið ein helsta skýring verðbólgu undanfarin misseri. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hefur aðeins hækkað um prósent á síðustu tveimur árum en hækkun verðlags í heild mælist um fjögur prósent.
Heimild: Vísir.is