Home Fréttir Í fréttum Upp­söfn­uð við­halds­þörf inn­við­a er 420 millj­arð­ar krón­a

Upp­söfn­uð við­halds­þörf inn­við­a er 420 millj­arð­ar krón­a

105
0
Mynd: Frettabladid.is

Í síðustu niðursveiflu sem hófst 2008 slógu stjórnvöld á frest nauðsynlegu viðhaldi innviða og öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum.

<>

Uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða er áætluð 420 milljarðar króna eða 14,5 prósent af landsframleiðslu og 9,3 prósent af endurstofnvirði innviðanna.

Með uppsafnaðri viðhaldsþörf er átt við hvað þarf til að koma viðkomandi þætti innviða í ástandseinkunn 4 af 5, þ.e. í ástand þar sem staða þeirra er góð og eðlilegt viðhald þarf til að halda stöðu þess óbreyttri.

Að meðaltali fá innviðir ástandseinkunnina 3. Innviðirnir eru í samgöngukerfinu, veitukerfinu, raforkukerfinu og fasteignum hins opinbera.

Þetta kemur fram í skýrslu frá Samtökum iðnaðarins um innviði.

Tæplega 57 prósent af uppsafnaðri viðhaldsþörf má rekja til þátta innviða sem fá ástandseinkunnina 2.

Af þeim er uppsöfnuð viðhaldsþörf mest í vegakerfinu eða um 160–180 milljarðar króna þar sem um er að ræða uppsafnaða þörf bæði í þjóðvegakerfinu og á sveitarfélagavegum.

Einnig er umtalsverð uppsöfnuð viðhaldsþörf í fráveitum, 50-85 milljarðar króna. Viðhaldi innviða hefur verið ábótavant á þessum sviðum.

Víða um land eru hættulegir vegkaflar svo dæmi sé tekið og á höfuðborgarsvæðinu er þörf á því að bæta samgöngur talsvert. Þá er stór hluti fráveitukerfisins yfir 50 ára gamall og er afkastagetu þess víða ófullnægjandi.

Mynd/Samtök iðnaðarins

„Í síðustu niðursveiflu sem hófst 2008 slógu stjórnvöld á frest nauðsynlegu viðhaldi innviða og öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum. Fjárfesting hins opinbera var í mörg ár langt undir langtímameðaltali.

Átak hins opinbera í þessum málum allra síðustu ár hefur skilað auknum fjárfestingum. Þrátt fyrir aukninguna hefur hlutfall þessara fjárfestinga af landsframleiðslu verið undir eða við langtímameðaltal og fer nú lækkandi.

Þetta gerir það að verkum að ástandið hefur ekki lagast frá því síðast var lagt mat á uppsafnaða þörf í innviðakerfinu árið 2017.

Matið á uppsafnaðri viðhaldsþörf innviða hefur hækkað um 2 prósent á föstu verði á tímabilinu frá 2017 og farið úr 14,2 prósent af landsframleiðslu í 14,5 prósent.

Má því segja að verkefnið sé viðlíka stórt nú og það var árið 2017,“ segir í skýrslunni.

Skýrsluhöfundar meta endurstofnvirði innviða hér á landi á 4.493 milljarðar króna eða 155 prósent af vergri landsframleiðslu. Þetta er talsvert umfangsmeira kerfi sem hlutfall af landsframleiðslu en finnst víðast hvar í öðrum löndum.

Heimild: Frettabladid.is