Á næstu árum áætlar Reykjavíkurborg að leggja um sjö til átta milljarða í endurbætur á núverandi sundlaugum og uppbyggingu nýrra sundlauga í borginni auk aðstöðu fyrir sjósund.
Laugardalslaug
Stærsta fjárfestingin eru endurbætur á Laugardalslaug, en framkvæmdir þar eiga að standa yfir á árunum 2021-2025 og kosta um þrjá milljarða. Líkt og Morgunblaðið fjallaði um í nóvember er í rauninni verið að fara í fullar endurbætur á lauginni og hún byggð upp í nýrri mynd. Á það bæði við um sundlaugar og heita potta.
Í svari Reykjavíkurborgar vegna málsins segir að gert sé ráð fyrir að efna til samkeppni um frekari þróun laugasvæðisins og verði sérstaklega hugað að hvernig nýta megi vannýtt stúkumannvirkið.
Úlfarsárdalur
Undanfarin ár hafa átt sér stað framkvæmdir vegna miðstöðvar menntunar, menningar og íþrótta í Úlfarsárdal. Meðal þess sem þar á að koma verður bæði inni- og útisundlaug ásamt heitum pottum. Í kynningu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á græna plani borgarinnar og fjárfestingum á föstudaginn kom fram að gert væri ráð fyrir 2,6 milljörðum í áframhaldandi framkvæmdir á þessu ári tengt miðstöðinni. Þess ber þó að geta að sundlaugin er þar aðeins einn hluti og einnig er unnið að íþróttamannvirkjum Fram með fjölnota íþróttahúsi, knattspyrnuleikvangi með stúku og minni íþróttasölum, auk félags- og þjónustuaðstöðu, samkomusals og fundaraðstöðu.
Sundhöllin í Reykjavík
Á árunum 2022-2025 er svo áformað að fara í tvær framkvæmdir. Annars vegar verða settar 900 milljónir í endurbætur á Sundhöllinni í Reykjavík. Er þetta önnur framkvæmdalota við Sundhöllina, en áður kláruðust miklar endurbætur og nýframkvæmdir haustið 2017, meðal annars með nýrri útisundlaug og útiaðstöðu. Í svari Reykjavíkur segir að nú sé einkum um að ræða endurgerð á húsi Sundhallarinnar sem teiknað var af Guðjóni Samúlssyni. Ekki sé um að ræða breytingar á útliti eða anda hússins. Ekki er því verið að horfa til þess að breyta laugaraðstöðunni sjálfri.
Fossvogur
Á sama tíma er áformað að fara í sameiginlegar framkvæmdir með Kópavogsbæ með byggingu sundlaugar í Fossvogsdal. Á áætlun er gert ráð fyrir 650 milljónum í þessa framkvæmd af hálfu Reykjavíkurborgar árin 2022-2025. Í svari Reykjavíkurborgar segir að unnið sé að málinu og að næstu skref verði kynnt fljótlega. Skoðaðir hafi verið valkostir varðandi bestu staðsetningu og meginlínur varðandi útfærslu. Endanlegur fjöldi potta og fleira sem lýtur að útfærslunni liggur þó ekki fyrir. Samkvæmt frétt frá árinu 2018 er gert ráð fyrir sundlauginni nálægt Fossvogsskóla og Snælandsskóla, líkt og sjá má í fréttinni. Lítið hefur þó heyrst af málinu síðan.
Ártúnshöfði og Elliðaárvogur
Á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog eru uppi áform um talsvert mikla íbúðaruppbyggingu á komandi árum, meðal annars í tengslum við lagningu borgarlínu í gegnum svæðið. Samhliða því gerir Reykjavíkurborg ráð fyrir 1.700 milljónum í framkvæmdir við nýja sundlaug á svæðinu á árunum 2026-2030. Nákvæm staðsetning hefur ekki verið kynnt, en búist er við að nýtt deiluskipulag fyrir svæðið verði kynnt á næstunni og fari í formlegt auglýsingaferli í kjölfarið.
Sjóböð
Að lokum kynnti borgarstjóri í erindi sínu að gert væri ráð fyrir 450 milljónum í „Nýjar ylstrendur m.a. við Gufunes.“ Samkvæmt svari Reykjavíkur hefur borgin markað sér þá stefnu að ýta enn frekar undir sjóböð og notkun strandlengjunnar til útivistar. Kannaðir hafa verið möguleikar á slíkri aðstöðu í Gufunesi, en svæðið er í sérstöku alþjóðlegu samkeppnisferli þessa stundina. Einnig hefur verið skoðað að koma upp slíkri aðstöðu á Laugarnesi, en engar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi Laugarnesið enn sem komið er.
Heimild: Mbl.is