Home Fréttir Í fréttum Klofnaði vegna malbikunarstöðvar

Klofnaði vegna malbikunarstöðvar

249
0
Uppbygging stöðvarinnar er fyrirhuguð á Esjumelum. Mynd: Haraldur Guðjónsson /vb.is

Íbúar Leirvogstungu búa ekki nægilega nærri fyrirhugaðri malbikunarstöð á Esjumelum til að geta haft áhrif á uppbygginguna.

<>

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) hefur vísað frá kröfu Mosfellsbæjar og fimm fasteignareigenda þar í bæ um að fella úr gildi breytingu borgarráðs Reykjavíkur á deiliskipulagi sem heimilar uppbyggingu malbikunarstöðvar á Esjumelum.

Einn nefndarmaður skilaði séráliti og taldi að taka ætti málið til efnismeðferðar.

Uppbyggingaraðili malbikunarstöðvarinnar er Malbikunarstöðin Höfði hf. en umrætt félag er í eigu Reykjavíkurborgar.

Núverandi lóð félagsins við Elliðaárvog er ætluð undir íbúabyggð og rennur lóðarleigusamningur út í lok júní þessa árs. Óskaði félagið því eftir nýrri lóð og tók eigandinn, eðli málsins samkvæmt, vel í þá bón.

Fyrirhuguð staðsetning er í nágrenni Leirvogstungu en tæpir tveir kílómetrar munu skilja á milli stöðvarinnar og íbúabyggðar. Töldu íbúarnir að framkvæmdin hefði í för með sér neikvæð sjón- og umhverfisáhrif sem væru til þess fallinn að skerða útivistarsvæði og lækka fasteignaverð.

Í raun væri Reykjavíkurborg að færa mengandi iðnað úr borginni og á Esjumela án þess að taka tillit til þeirra sem þar eru fyrir. Sveitarfélagið Mosfellsbær benti einnig á að það ætti landareignir í um 600 metra fjarlægð frá malbikunarstöðinni.

Ekki réttur til ómengaðs útsýnis

Borgin krafðist þess á móti að málinu yrði vísað frá þar sem fólkið byggi það fjarri stöðinni að það gæti ekki haft áhrif á þau. Þá gæti fólkið ekki búist við því að það ætti „rétt til óbreytts útsýnis um aldur og ævi“.

Umræddar fasteignir væru í 1.500 metra fjarlægð frá fyrirhugaðri uppbyggingu ætti því ekki að hafa áhrif á íbúa. Fólkið benti á móti á að ÚUA hefði árið 2019 tekið til efnismeðferðar kröfu íbúa í Eyjafirði sem fengu skyndilega svínabú í um kílómeters fjarlægð frá heimili sínu.

Í niðurstöðu meirihluta nefndarinnar sagði að óumdeilt væri að starfsemin væri mengandi og háð starfsleyfi umhverfisstofnunar. Þó yrði að gera ráð fyrir því að mengunarvörnum yrði komið fyrir til að „draga úr þeirri loftmengun sem óhjákvæmilega fylgir starfseminni“.

Þótt ekki væri unnt að útiloka að einhver loftmengun yrði þá bentu gögn frá Veðurstofu Íslands til þess að „vindafar deiliskipulagssvæðisins [væri] hagstætt gagnvart Leirvogstunguhverfi.“

Að mati meirihluta nefndarinnar voru eignir kærenda ekki nægilega nærri svæðinu til að unnt væri að telja að uppbyggingin myndi hafa veruleg áhrif á hagsmuni þeirra. Með þeim rökum var því hafnað að þeir gætu átt aðild að málinu og því vísað frá.

Sérálit prófessors í umhverfisrétti

„Fasteignir kærenda í Leirvogstunguhverfi eru í u.þ.b. 1,3-1,9 km fjarlægð frá fyrirhugaðri malbikunarstöð og landareignir Mosfellsbæjar eru í tæplega kílómetra fjarlægð þar sem þær eru næst stöðinni.

Í starfsleyfum vegna starfsemi malbikunarstöðva er jafnan kveðið á um varnir gegn mengun ytra umhverfis, s.s. losunarmörk fyrir útblástur og þann hreinsibúnað sem skal vera til staðar, auk þess sem rekstraraðila ber að nota bestu aðgengilegu tækni (BAT) við mengunarvarnir.

Þrátt fyrir að gera megi ráð fyrir að hliðstæð skilyrði verði sett þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er á skipulagssvæðinu verður þó ekki hjá því litið að loftgæði munu að öllum líkindum minnka í nágrenni stöðvarinnar,“ segir í séráliti Aðalheiðar Jóhannsdóttur, prófessors við lagadeild Háskóla Íslands. Taldi hún að fólkið gæti því átt aðild að málinu og taka ætti það til efnismeðferðar.

Heimild: Vb.is