Home Fréttir Í fréttum Hafnarfjarðarbær aftur dæmdur fyrir óbyggðan grunnskóla

Hafnarfjarðarbær aftur dæmdur fyrir óbyggðan grunnskóla

203
0
Mynd: RÚV/Eddi
Héraðsdómur Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu í lok síðasta mánaðar að Hafnarfjarðarbær þurfi að greiða arkitektastofunni Hornsteinum skaðabætur vegna grunnskóla sem stofan hannaði en var aldrei byggður.
Í staðinn var honum fundinn annar staður nærri áratug seinna og nýtt útboð haldið. Arkitektastofan hefur metið tjónið á 47 til 74 milljónir króna.

Þetta er í annað sinn sem Héraðsdómur Reykjaness kemst að þessari niðurstöðu. Fyrri dómi var áfrýjað til Landsréttar sem vísaði málinu í hérað í júní síðastliðnum.

<>

Bæjaryfirvöld efndu til lokaðs útboðs um hönnun og ráðgjöf fyrir Hamranesskóla í apríl fyrir tólf árum. Hornsteinar áttu hagstæðasta tilboðið. Ekkert varð hins vegar af byggingu skólans fyrr en níu árum eftir útboðið þegar bærinn auglýsti alútboð vegna sama skóla en á nýjum stað.

Þetta taldi arkitektastofan vera brot á lögum og vísaði til þess að samkvæmt útboðsgögnum hefði bæjaryfirvöldum verið skylt að ganga til samninga við hana.

Með tilkomu alútboðsins væri ljóst að bygging og hönnun skólans væri falin öðrum með tilheyrandi fjárhagslegu tjóni fyrir hana.

Hafnarfjarðarbær krafðist sýknu og sagði meðal annars að forsendur fyrir því að gera samning við arkitektastofuna hefðu brostið þar sem bærinn hefði verið mjög skuldsettur eftir bankahrunið.

Skuldabyrði bæjarfélagsins hefði aukist gríðarlega strax í kjölfar hrunsins og hann verið ógjaldfær fyrstu misserin.  Mörg ár hafi tekið að leysa úr skuldastöðu bæjarins og koma rekstri hans í sjálfbært horf.

Þá var á það bent að skólinn sem síðar var byggður, Skarðshlíðarskóli, væri allt annað verkefni en Hamranesskóli.  Hann væri minni og ódýrari framkvæmd og skólinn hefði verið byggður áratug síðar en til hafi staðið að reisa Hamranesskóla.

Dómurinn hafnar þessari skýringu bæjaryfirvalda og bendir á að arkitektastofan hafi verið með kynningu tveimur árum eftir hrun á vegum bæjarins.

Á þeim tveimur árum sem liðu frá hruni og til ársins 2010 hafi bæjaryfirvöld ekki talið vera brostnar forsendur fyrir áframhaldandi samvinnu.

Var Hafnafjarðarbæ talinn skaðabótaskyldur og gert að greiða 5 milljónir í málskostnað. Dómurinn var kynntur á fundi bæjarráðs fyrir helgi þar sem samþykkt var að áfrýja honum til Landsréttar.

Heimild: Ruv.is