Home Fréttir Í fréttum Kynna í dag nýtt hverfi með íbúðafjölda á við Garðabæ

Kynna í dag nýtt hverfi með íbúðafjölda á við Garðabæ

229
0
Mynd: Kastljós - RÚV
Reykjavíkurborg kynnir í dag fyrirhugaða íbúðauppbyggingu í borginni og „Græna planið“. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að meðal þess sem verði kynnt sé nýtt deiliskipulag fyrir Ártúnshöfða og Elliðaárvog þar sem borgin stefni að því að byggja 7.500 íbúðir og leggja grunn að einu grænasta hverfi landsins.  Dagur var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Fjölbreytt hverfi með náttúru innan seilingar

Dagur bendir á að íbúðafjöldinn í nýja hverfinu sé álíkamikill og í öllum Garðabæ. „Með því að hugsa umhverfismálin alveg í gegn frá upphafi, þá erum við að kynna hverfi sem bæði stendur undir því að vera nægilega þétt til að standa undir lykilþjónustu og vera fjölbreytt og skemmtilegt með alls konar íbúðum af öllum stærðum og gerðum og fyrir alla hópa.

<>

En er líka með náttúruna og allan Elliðaárdalinn og útivist tengda sjó og vatnasporti innan seilingar,“ segir hann.

„Þarna er auðvitað gamalt atvinnu- og iðnaðarsvæði í alveg ótrúlegri nálægð við náttúruna. Bæði sjóinn og Elliðaárvoginn þar sem Elliðaárnar renna niður. Höfðinn sjálfur sem við köllum Ártúnshöfða er í raun hamar með alveg ótrúlegt útsýni út á sundin til Viðeyjar og upp að Esju.

Og svo þarna norðuraf erum við með strandlengjuna að Gufunesi og svo framvegis,“ bætir hann við.

Val um ferðamáta

Auk nýju byggðarinnar verður kynntur viðauki við aðalskipulag borgarinnar þar sem því er lýst hver verða lykiluppbyggingasvæðin næstu 20 árin. Dagur segir að lykilsvæðin verði nálægt almenningssamgöngum.

„Yfir 80 prósent af nýrri uppbyggingu næstu 20 ár verða á áhrifasvæði borgarlínunnar, í auðveldri fjarlægð frá næstu stöð,“ segir hann. Með því megi minnka kolefnisfótspor en einnig gefa fólki val um ferðamáta.

Borg fyrir alla

Dagur segir lykilatriði að borgin sé byggð fyrir alla hópa. „Markmiðið er að 25 prósent af allri uppbyggingu á að verða fyrir þá sem hafa lítinn pening til að setja í nýja eign,“ segir hann.

Það séu til dæmis stúdentaíbúðir og íbúðir fyrir aldraða og fólk með fötlun. Mikilvægt sé að gæta þess að ný svæði byggist upp sem blönduð svæði til að tryggja félagslega blöndun.

Þúsund íbúðir á ári verði meðaltalið áfram

Dagur segir að síðustu fimm ár hafi verið metár í uppbyggingu íbúða. „Við höfum séð byggjast um þúsund íbúðir á ári. Ef við horfum aftur til 1970 eru aðeins einstaka ár sem komast upp í þessar hæðir,“ segir hann. Stefnt sé að því að þúsund íbúðir á ári verði meðaltalið næstu árin.

Heimild: Ruv.is