Home Fréttir Í fréttum Borgin ætlar ekki að bíða lengur með að rífa húsið

Borgin ætlar ekki að bíða lengur með að rífa húsið

154
0
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Ekki er óhætt að bíða lengur með að rífa húsið við Bræðraborgarstíg 1 sem brann í sumar.
Þetta er mat byggingarfulltrúa borgarinnar sem segir að húsið hafi ekki verið rifið því lögregla hafi ekki svarað fyrirspurnum borgarinnar. Hann segir húsið hættulegt og óttast að það fjúki í næstu lægð.

Nikulás Úlfar Másson, byggingafulltrúi Reykjavíkurborgar, segir að fljótlega eftir brunann hafi borgin haft samband við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, slökkviliðið og lögregluna með beiðni um að fá að rífa húsið, en það var ekki unnt á meðan þar var ennþá vettvangur rannsóknar.

<>

Þrennt lést í brunanum. Lögreglurannsókn lauk í september og ákæra hefur verið gefin út á hendur karlmanni fyrir manndráp og íkveikju.

Rannsókn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er einnig lokið og verður hún kynnt í næsta mánuði.

„En við höfum ekki enn fengið svar frá lögreglunni þrátt fyrir ítrekuð boð um það. Við ætluðum bara að passa upp á að við ætluðum ekki að láta rannsóknarvettvang eyðileggjast á meðan á rannsókn stóð,“ segir Nikulás.

Hann segir að nú verði haft samband við eiganda hússins og hann beðinn um að fjarlægja það.  „Við munum gefa houm einhver tímamörk til þess, hvort sem það verða 2,3 eða 4 vikur, það þarf bara að koma í ljós.“

Teljið þið að byggingin sé hættuleg? „Það gefur eiginlega auga leið að hús í þessu ástandi getur verið hættulegt. En þess ber að geta að við fórum strax á staðinn og skoðuðum þær aðgerðir sem gerðar voru eftir brunann.

Húsið var girt af og sett net yfir og það var vel gert þannig að við höfum verið tiltölulega róleg fram að þessu. En núna eru að fara að koma lægðir sem geta hugsanlega feykt húsinu um koll. “

Heimild: Ruv.is