Framkvæmdir við Klappir, nýjan leikskóla á Akureyri, ganga samkvæmt áætlun. Skólinn er sjö deilda með 144 rými og áætlað að hann verði tilbúinn næsta haust.
Framkvæmdir við nýjan leikskóla á Akureyri sem heitir Klappir eru í fullum gangi en þær hófust í apríl.
Andrea Sif Hilmarsdóttir, verkefnastjóri nýframkvæmda hjá Akureyrarbæ segir ljómandi gang á verkefninu og allt hafi staðist hingað til.
Verkið sé komið um það bil 25% á veg og standist bæði kostnaðar- og tímaáætlun. Hún segir góðan undirbúning hafa skilað sér vel og að lítið hafi komið á óvart í ferlinu.
Reiknað sé með að kostnaðaráætlun sem hljómi upp á tæpan milljarð muni standast.
Í kapp við veturinn
Nú er verið að klára að steypa upp veggi og Andrea Sif telur um það bil mánuð í að náist að loka húsinu.
Hún vonist því til þess að það byrji ekki að snjóa alvega strax, það yrði allavega kostur ef þau myndu ná að loka húsinu fyrir snjó svo það væri hægt að sinna innivinnunni í vetur.
7 deildir og 144 rými
Skólinn verður tæplega 1500 fermetrar með sjö deildum og 144 rýmum, þar á meðal ungbarnadeild. Áætlað er að verkinu ljúki í ágúst 2021.
Þegar leikskólinn Klappir verður tekinn í notkun verður hluta af leikskólanum Pálmholti lokað en þar eru nú 42 rými.
Ingibjörg Isaksen formaður fræðsluráðs segir fyrirkomulag næsta veturs eiga að skýrast á næstunni og boðað verði til fundar með foreldrum til að ræða það nánar.
Heimild: Ruv.is