Home Fréttir Í fréttum Þurfa að fara með milljónatjón á Eyri fyrir dóm

Þurfa að fara með milljónatjón á Eyri fyrir dóm

268
0
Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS

Ísafjarðarbær ætlar að láta reyna á það fyrir dómi hvort byggingarstjóri hjúkrunarheimilisins Eyrar sé ábyrgur fyrir galla á ytra byrði hússins.

<>

Bærinn þarf að ráðast í úrbætur sem fyrst þannig að skaðinn verði ekki meiri og segir bæjarstjóri Ísafjarðar að tjónið hlaupi á einhverjum milljónir.

Hjúkrunarheimilið Eyri var tekið í notkun fyrir aðeins fjórum árum og segir Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri, að ekki sé ásættanlegt að svona nýtt hús sé gallað.

„Það virðist ekki hafa verið fullnægjandi frágangur og það lekur á ákveðnum stað.“

Í bréfi sviðsstjóra umhverfis-og fasteignasviðs hjá Ísafjarðarbæ til tryggingafélagsins TM kemur fram að bæjaryfirvöld telji sig eiga kröfu í starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra vegna skemmda á múrklæðningu.

TM taldi gallana óverulega og að þeir fælu ekki í sér stórfellda vanrækslu.

Bærinn er þessu ósammála. Í bréfi sviðsstjórans kemur meðal annars fram að gallana megi rekja til þess að samþykktum hönnunargögnum, verklýsingum og ákvæðum laga hafi ekki verið fylgt eftir við framkvæmd viðkomandi verkþáttar.

Og að gallarnir hafi ekki komið í ljós fyrr en mannvirkið var tekið í notkun. Ekki hafi verið bætt úr þeim og þeir hefðu ekki átt að dyljast byggingarstjóra við eftirlit.

Ísafjarðarbær hafi orðið fyrir tjóni af völdum gáleysis byggingarstjóra.

Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs í dag þar sem það var samþykkt að fela bæjarstjóra að vinna málið áfram og sækja kröfur bæjarins.

Heimild: Ruv.is