Útboð um uppsteypu á meðferðakjarna nýja Landspítalans frá þeim fimm verktökum sem stóðust forval voru opnuð á ellefta tímanum í morgun.
Forvalið var opið og auglýst innan Evrópusambandsins.
Tilboð bárust frá fjórum verktökum; Eykt, Íslenskum aðalverktökum, Ístaki, Rizzani De Eccher ásamt þingvangi.
Opið útboð vegna veitukerfis og vinnubúða starfsfólks við byggingu meðferðarkjarnans eru opin til 3. september næstkomandi.
Bygging sjúkrahússins er eitt viðamesta byggingaverkefni síðari ára á Íslandi. Meðferðarkjarninn er stærsta bygging Hringbrautarverkefnisins. Húsið er um 70 þúsund fermetrar.
Undir sjúkrahústorginu verður bílakjallari fyrir 200 bíla auk húss með 550 bílastæðum þar sem varaaflstöð fyrir spítalann er sömuleiðis fyrirkomið.
Búist er við að uppsteypa meðferðarkjarnans taki tæp þrjú ár ár en ætlunin er að húsið verði tekið í notkun 2025 eða 2026.
Á vef Hringbrautarverkefnisins kemur fram að starfsemi Landspítala fari nú fram í um hundrað húsum á 17 stöðum á höfuðborgarsvæðinu.
Heimild: Ruv.is