Einingaverksmiðjan ehf. flytur á næstu 1-2 árum alla starfsemi sína úr Breiðhöfða 10 til Þorlákshafnar. Sigurbjörn Óli Ágústsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að þetta sé gert vegna þess að lóðin á að vera nýtt undir stoppistöð borgarlínunnar, sem verður á horni Breiðhöfða og Stórhöfða.
Eigendur lóðarinnar, sem Einingaverksmiðjan hefur haft á leigu um áratugabil frá stofnun 1994, upplýstu fyrirtækið um að þessar breytingar stæðu til á svæðinu, sem yrðu þess valdandi að það þyrfti að flytja starfsemi sína.
Þetta er mjög plássfrek starfsemi og húsnæðið um 3.500 fermetrar.
„Það er auðvitað mjög erfitt að fara af markaðssvæðinu okkar, sem er stóra Reykjavíkursvæðið. En við erum með starfsemi sem krefst mikils útipláss og lagerpláss og það eru ekki margar einkalóðir fyrir slíkt í Reykjavík,“ segir Sigurbjörn við mbl.is.
Hann kveðst ekki viss um að starfsemin hefði verið til lengdar áfram á svæðinu jafnvel þó að borgarlínan hefði ekki komið til. „Ég er ekki viss. Það er búið að vera að kaupa upp lóðirnar á Höfða núna í gegnum tíðina fyrir aðra starfsemi, þannig að þetta er bara endurnýjun sem á sér stað. Maður getur skilið það,“ segir Sigurbjörn.
Ánægja með Ölfus
Sigurbjörn segir góðan hug í starfsfólkinu um að fylgja fyrirtækinu á Þorlákshöfn. „Ég held að menn setji þetta ekki rosalega mikið fyrir sig. Það er ein heiði þarna á milli, þetta er ekki langur akstur,“ segir hann.
„Sveitarfélagið Ölfus hefur tekið mjög vel á móti okkur og sýnt mikla velvild til að taka við fyrirtæki eins og okkar. Það hefur úthlutað okkur hagkvæmri lóð þar sem er nægjanlegt pláss fyrir okkur til framtíðar og enn frekari stækkunarmöguleikar. Við erum spenntir, enda sjáum við líka tækifæri í að koma nær þessu markaðssvæði sem Suðurland er,“ segir Sigurbjörn.
Á gatnamótum Breiðhöfða og Stórhöfða, sem hafa verið kölluð Krossmýrartorg, rís ein kjarnastöðva borgarlínunnar, nýs almenningssamgangnakerfis í Reykjavík. Hún á að hafa tengingu við Vogabyggð til vesturs og lína liggur svo í Grafarvog um Gullinbrú, Fjallkonuveg, Langarima að Spöng. Þá liggur lína frá Breiðhöfða um Keldnasvæðið og í gegnum miðsvæði við Blikastaðaveg í átt til Mosfellsbæjar, segir í greinargerð um borgarlínu frá 2017.
Heimild: Mbl.is