Home Fréttir Í fréttum Á hengiflugi í hlíðum Bolafjalls

Á hengiflugi í hlíðum Bolafjalls

347
0
Það eru ekki lofthræddir menn sem vinna að undirbúningi uppsetningar útsýnispalls í 640 metra hæð á tindi Bolafjalls. Mynd: STÖÐ 2/HAFÞÓR GUNNARSSON

Undirbúningur er hafinn að byggingu útsýnispalls á toppi Bolafjalls yfir Bolungarvík sem á að vera tilbúinn næsta vor.

<>

Það er ekki fyrir lofthrædda að vinna verkið eins og Hafþór Gunnarsson fréttamaður okkar komst að.

Þessa dagana er verið að bora í tinda Bolafjalls og til að gera það þurfa menn meðal annars að svífa um í körfu frá krana efst á fjallinu í tæplega 640 metra þverhnípi og ekki fyrir lofthrædda að svífa þar um.

Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri í Bolungarvík segir miklu muna að verkefnið fékk hæsta styrkinn frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.
Mynd: STÖÐ 2/HAFÞÓR

Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri í Bolungarvík segir að ljúka eigi undirbúningsvinnu fyrir haustið og pallurinn verði síðan settur saman í vetur.

„Þannig að hérna á bakvið mig eru þeir byrjaðir að bora í bergið og gera allt klárt til að geta skrúfað hann upp næsta sumar.“

„Til að tryggja að hann sé öruggur og ég get fullyrt að þegar hann er tilbúinn væri hægt að keyra skriðdreka þarna útá án þess að nokkuð gerist. Þannig að þessir kappar sem nú eru að síga hér sjá til þess að þetta verður pottþétt,“ segir bæjarstjórinn.

Óhætt er að fullyrða að þarna rísi einn magnaðist útsýnispallur landsins þaðan sem sést langar leiðir út að Snæfjallaströnd, inn í Ísafjarðardjúp og auðvitað yfir Bolungarvík.

Það er algengt að það skelli á þoka á Bolafjalli með engum fyrirvara. Bæjarstjórinn segir að ekki verði síðra að standa á útsýnispallinum í þokunni.
Mynd: STÖÐ 2/HAFÞÓR GUNNARSSON

Heldur þú að það fari ekki um fólk þegar það fer hérna út á svalirnar?

„Jú, til þess er leikurinn gerður. Bæði til að upplifa stórkostlegt útsýni í góðu veðri. Svo verður þetta líka alveg magnað í þoku. Ég trúi að þegar maður er staddur í þokunni úti í tóminu verði það ekki síðri upplifun,“ segir Jón Páll Hreinsson.

Verkið fékk stærsta styrkinn sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti á þessu ári, 160 milljónir. Bæjarstjórinn segir verkið verða á fjárhagsáætlun og pallurinn tilbúinn seint næsta sumar eða íbyrjun hausts.